150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stimpilgjald.

569. mál
[12:36]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu á þessu frumvarpi. Ég tel það að mörgu leyti gott þótt ég hafi ekki kynnt mér það til hlítar en ég velti fyrir mér einni spurningu, a.m.k. í upphafi. Það vill kannski svo til að menn fá eignararf, eignast eign að smáum hluta fyrir arf, kannski jörð eða eitthvað slíkt. Það er oft ansi skipt eignaraðild að jörðum þegar kemur til þess að þær fari á milli kynslóða. Menn eignast kannski jörð að 1–3%, eitthvað slíkt, eins og mörg dæmi eru um. Þetta er kannski ungt fólk og ég spyr hvort það sé rétt hjá mér, eins og ég hef heyrt, að þegar það unga fólk kaupir sér síðan íbúð komi þetta í veg fyrir að viðkomandi njóti afsláttar við kaup á sinni fyrstu íbúð. Ef svo er þarf auðvitað að skoða það því að þetta er í raun ekki mikil eign og jafnvel þótt meira væri. Jafnvel þótt það séu bara 10–20% í jarðarparti einhvers staðar sem lítils virði er kemur það í veg fyrir að viðkomandi njóti þessa afsláttar.