150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stimpilgjald.

569. mál
[12:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er gott dæmi um mál sem getur vafist fyrir okkur í framkvæmd laganna. Hér er sem sagt lagt til að farin verði sú leið að höggva á hnútinn þannig að menn geti notið góðs af lagaákvæðinu um afslátt við fyrstu íbúðarkaup enda hafi þeir ekki áður verið þinglýstir eigendur að fasteign. Hér er verið að hnykkja á því að það gildi einu hvort þar hafi verið um að ræða kaup, gjafagerning, arf eða að viðkomandi hafi með öðrum hætti eignast eignina.

Ef við viljum þróa þessa hugmynd eitthvað lengra sem hv. þingmaður er hér að opna á og segja: Ef þetta var bara lítill eignarhlutur í fasteign eigum við að horfa í gegnum fingur okkar með það, held ég að þetta sé gott dæmi um mál sem er sjálfsagt að fara nánar ofan í saumana á, ekki síst að viðkomandi þingnefnd ræði við þá sem hafa verið að framkvæma lögin og kynni sér nánar öll þau fjölbreyttu tilvik sem menn hafa þurft að höggva á hnútinn með þegar upp kemur spurningin: Á viðkomandi rétt á afslættinum eða ekki?