150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stimpilgjald.

569. mál
[12:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar hugleiðingar. Þetta er mjög raunhæft og líka varðandi fasteignir sem lítils virði eru kannski úti á landi sem fólk erfir að hluta til, eins og ég nefndi í fyrri spurningu minni. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra þegar hann lýsir því yfir að þetta sé nokkuð sem nefndin ætti virkilega að skoða. Í mörgum tilvikum getur þetta verið mjög ósanngjarnt. Ég hef heyrt um dæmi þess að fólk hafi ekki notið þessa afsláttar, sem getur numið verulegum fjárhæðum fyrir ungt fólk sem er að festa kaup á íbúð, hefur svo kannski einhverjum árum áður erft einhvern hlut í fasteign, kannski úti á landi, sem er lítils eða einskis virði og nýtur því ekki þessa afsláttar.

Ég tek undir orð hæstv. ráðherra og ég tel að nefndin ætti að skoða þetta verulega og fyrst það er hægt að koma inn í lögin lágmarkseignarhlut í kaupum svo hann njóti afsláttarins hlýtur líka að vera hægt að taka tillit til þess sem ég er að nefna.