150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stimpilgjald.

569. mál
[12:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að svona álitamál hafa komið upp við framkvæmd laganna. Hér er sem sagt verið að leggja til við að við höggvum á þann hnút með því að segja að skilyrði afsláttarins sé að menn hafi ekki áður verið þinglýstir eigendur. Það væri þá valkostur við þá aðferðafræði að segja annaðhvort að það skipti ekki máli jafnvel þótt menn hafi áður verið þinglýstir eigendur en í því geta komið upp mjög ósanngjörn tilvik. Segjum sem svo að einhver hafi með arfi tekið við íbúð og ákveðið seinna á lífsleiðinni að fara í fasteignakaup og þá vill viðkomandi njóta afsláttarins enda hafi hann aldrei áður keypt íbúð. Ég myndi segja að í því tilviki hafi vilji löggjafans staðið til þess að viðkomandi nyti ekki afsláttarins enda væri hann ekki að reyna að komast yfir þann þröskuld sem við höfum verið með í huga þegar við smíðuðum það léttitæki sem afslátturinn er.

Þetta er dálítið svarthvítt dæmi sem ég teikna hér upp en við getum haldið áfram að velta fyrir okkur hvort það skipti máli hvort viðkomandi hefði tekið við 60% eignarhlut í íbúð. Hvað ef hann hefði tekið 10% eignarhlut í íbúð? Það er alveg hárrétt að þetta geta verið svolítið snúin mál í framkvæmd en ef við viljum draga línuna einhvers staðar annars staðar held ég að það skipti mestu að lögin séu skýr þannig að ekki komi upp álitamál í framkvæmd og eins líka að fólk viti nákvæmlega hver réttur þess er.