150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sjúkratryggingar.

298. mál
[13:44]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpinu í annað skipti, ég mælti líka fyrir því á síðasta ári. Það snertir m.a. breytingu á lögum um sjúkratryggingar og tengist liðskiptaaðgerðum og fleiri aðgerðum sem eru langir biðlistar eftir. Það er ekki það eitt að biðlistarnir séu langir heldur er biðtíminn það sem skiptir máli og hann er allt of mikill, m.a. út af því að Landspítali – háskólasjúkrahús nær ekki að sinna öllu. Við vitum af bæði fráflæðisvanda og manneklu. Við lögðum fram þetta frumvarp, þeir þingmenn sem að þessu máli standa, ég með þingmönnum Viðreisnar og tveimur frá Miðflokknum, sem tengist því sérstaklega að leysa a.m.k. þetta mál tímabundið, horfast í augu við þann vanda og þær þjáningar sem fólk þarf að líða yfir því að bíða eftir að komast í aðgerð. Það er hægt að leysa þetta með tilteknum leiðum sem við leggjum m.a. til hér. Menn hafa heyrt mig segja áður að mér finnst ákveðnar kreddur ráða ríkjum. Við erum að fara úr heilbrigðiskerfi þar sem eru blandaðar leiðir þar sem við erum að grunni til með þjónustu sem er sinnt af hinu opinbera og síðan erum við líka með aðra þjónustu í samfélaginu, hvert sem litið er, hvort sem við erum að tala um hjúkrunarrými, tannlæknaþjónustu eða krabbameinsleit, þó að reyndar sé verið að færa krabbameinsleitina í auknum mæli yfir á Landspítala – háskólasjúkrahús. Uppistaðan í heilbrigðiskerfi okkar hefur verið að blanda þessum leiðum, hafa skýrt afmarkaðan rétt einstaklinga úti í samfélaginu til heilbrigðisþjónustu og síðan reynum við að finna bestu leiðir til að sinna því að fólk fái þjónustu. Þá mega að mínu mati ekki ákveðnar kreddur ráða för eins og þær gera núna. Það er verið að fara úr þessu blandaða kerfi yfir í eitt ríkisrekið apparat. Ég er ekki viss um að það henti sjúklingum eða ríkiskassanum sjálfum.

Tillaga okkar flutningsmanna er sú að breyta 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar sem eru frá árinu 2008 þannig að inn í þá grein komi ný málsgrein sem segir eftirfarandi:

„Uppfylli sjúkratryggður skilyrði 23. gr. a til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins skal honum greiddur kostnaður við þá þjónustu hér á landi þótt samningur um heilbrigðisþjónustu sé ekki fyrir hendi, samanber IV. kafla. Skilyrði endurgreiðslu er að þjónustan sé veitt af aðila sem uppfyllir allar kröfur sem til slíkrar þjónustu eru gerðar og kostnaður við þjónustuna sé ekki meiri en henni myndi fylgja í öðru EES-ríki. Sjúkratryggingastofnun skal gefa út reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Við teljum þetta rétta leið til að bregðast við bráðavanda biðlistanna. Eins og við þekkjum þarf fyrst að fara á biðlista hjá heimilislækni eða sínum lækni til að komast inn á biðlistann til að komast í viðtal til að fara í liðskiptaaðgerð, hvort sem er á mjöðm, hné eða öðru. Þetta er orðið alveg ótrúlega flókið kerfi og við vitum að í stað þess að gera það allt að því þrisvar sinnum ódýrara hér heima eru sjúklingar sendir til m.a. Svíþjóðar á einkaklíník þar og það kostar allt að 3 millj. kr. Þetta er alveg galið af því að við erum með ríkisstjórn og heilbrigðisráðherra sem getur ekki hugsað sér að hafa áfram það blandaða kerfi sem við höfum byggt upp annars alveg ágætlega.

Vert er að draga fram að við þingmenn Viðreisnar og annarra flokka höfum lagt til, m.a. við fjárlagaumræðuna, tímabundnar fjárhæðir upp á 200 millj. kr. til sjúkratrygginga þannig að hægt sé að stytta biðlistana og fara strax í þessar aðgerðir. Hér hafa ítrekað, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þingmenn Framsóknarflokksins og auðvitað þingmenn Vinstri grænna fellt þessar tillögur okkar og annarra þingmanna. Það þarf einhvern veginn að útskýra fyrir fólki af hverju svo er. Ég get ekki ímyndað mér neina aðra leið en þá að ríkisstjórnin þurfi að halda saman. Hún má ekki falla á svona atriði og fyrir vikið er Sjálfstæðisflokkurinn ekki síður í fullri ábyrgð fyrir þessari ríkisvæðingu eins og heilbrigðisráðherra og hennar flokkur líka. Þeir flokkar geta ekki firrt sig ábyrgð á þessu.

Samkvæmt 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins á sjúkratryggður einstaklingur rétt á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru EES-landi sé bið hans eftir nauðsynlegri meðferð hér á landi eftir greiningu orðin lengri en viðmiðunartími nauðsynlegrar meðferðar. Gildi þessarar reglugerðar var staðfest hér á landi með reglugerð á árinu 2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Embætti landlæknis setti reglur um slík viðmiðunarmörk 15. júní 2016. Ásættanleg bið eftir aðgerð eða meðferð hjá sérfræðingi er þar ákveðin 90 dagar frá greiningu. Og munið, það er biðtími á undan til að komast fyrst í greininguna og svo fara menn í meðferð hjá sérfræðingi og þar er líka bið. Að liðnum 90 dögunum stofnast réttur sjúkratryggðs einstaklings til að leita sér þjónustu annars staðar á EES-svæðinu.

Það er alkunna að hér á landi hafa um árabil verið langir biðlistar eftir ýmsum aðgerðum og að ekki eru horfur á að þeir styttist verulega í náinni framtíð í ýmsum greinum, t.d. liðskiptaaðgerðum. Á síðasta ári sýndi einmitt úttekt hjá landlæknisembættinu fram á að þrátt fyrir ákveðið átak hafi það ekki skilað sér nægilega. Vegna þessa hafa allmargir sem sjúkratryggðir eru á Íslandi fengið slíkar aðgerðir framkvæmdar erlendis á síðustu árum og kostnaður við þær þá verið greiddur af Sjúkratryggingum Íslands ef skilyrðið um biðtíma hefur verið uppfyllt.

Sú undarlega staða er nú uppi að Sjúkratryggingar Íslands telja sér ekki heimilt að greiða kostnað við sams konar aðgerð hér á landi, enda þótt hún hafi verið gerð af aðila sem uppfyllir öll lagaskilyrði til að framkvæma hana. Synjunin hefur þá verið rökstudd með þeim hætti að ekki hafi verið fyrir hendi samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og viðkomandi læknis um framkvæmd slíkra aðgerða og stofnunin hefur talið sér óheimilt að gera slíkan samning vegna afstöðu ráðherra. Vegna afstöðu ráðherra hafa Sjúkratryggingar ekki talið sig hafa heimild til að fara í þessa samninga. Þessi afstaða hefur í reynd leitt til þess að kostnaður við aðgerðirnar er miklu meiri en nauðsyn krefur því að aðgerðir framkvæmdar erlendis eru mun dýrari en sams konar aðgerðir framkvæmdar utan ríkisspítalanna hér á landi, allt að tvisvar og hálfum til þrisvar sinnum dýrari. Auk þess fellur ferða- og uppihaldskostnaður á Sjúkratryggingarnar og í mörgum tilvikum einnig kostnaður vegna fylgdarmanns.

Þess vegna teljum við flutningsmenn þessa frumvarps ástæðu til að strax verði undið ofan af þessari framkvæmd með þeim hætti sem felst í þessu lagafrumvarpi.

Gott og vel, ég hef margsagt hér að ég geti í sjálfu sér skilið heilbrigðisráðherra, af því að hún stendur fyrir þær hugsjónir sem Vinstri græn hafa barist fyrir, að allt þurfi að vera ríkisrekið, að hún sjái ekki kosti þess að hafa blandað kerfi eins og við höfum haft fram til þessa, en getum við þá ekki a.m.k. sammælst um að leysa þótt ekki væri nema tímabundið þennan biðlistavanda með því að fara í þetta átak, m.a. út af því að álagið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er það mikið? Það er hægt að semja, t.d. við Klíníkina, en ég veit að það er líka hægt að færa aðgerðir og hafa þeir sem eru uppi á Skaga og líka fyrir norðan sagt að þeir gætu komið að því að leysa þetta. Setjum allar hendur á dekk og leysum þetta tímabundna viðfangsefni og þennan vanda. Fólk í kringum mig, bæði í fjölskyldu og vinir og frændfólk, hefur verið lengi á biðlistunum. Það er búið að bryðja töflur á töflur ofan. Við getum ímyndað okkur hvaða kostnað það hefur í för með sér að bryðja bólgueyðandi og verkjastillandi. Við erum ekki að tala um sparnað á þeim kostnaði í þessu frumvarpi þannig að ég grátbæni þá sem m.a. tilheyra Sjálfstæðisflokknum að hlusta á okkur og fara í þá vegferð með okkur í Viðreisn og fleiri flokkum að reyna að leysa þetta mikla verkefni tímabundið og lina þjáningar fólks sem er á biðlistum, fara í að heimila Sjúkratryggingum að semja við aðra aðila. Ég hef nefnt hér önnur opinber sjúkrahús eða einkaaðila sem uppfylla allar reglur og mæta öllum kröfum sem við gerum. Það er enginn að tala um að skrúfa frá krana, þvílíkt dellumakarí að tala um að við séum að skrúfa frá krana fyrir einkaaðila eða aðrar opinberar stofnanir. Það er talað um að lina þjáningar og vanda fólks sem er búið að vera lengi á biðlistum og ég veit að hér eru þingmenn sem eru mér sammála í þeim efnum að við megum ekki láta hugmyndafræðilegar kreddur hamla því að við linum þjáningar þessa fólks.

Þess vegna leggjum við þetta fram, við þingmennirnir sem erum á þessu máli, til að koma til móts við þennan vanda og um leið þjáningar fólks, eins og ég segi. Við getum leyst þetta. Þótt ekki væri nema tímabundið er hægt að fara í þessi verk og það er það sem við vonumst til að m.a. að þingmenn velferðarnefndar sjái þegar þeir fá þetta mál til umfjöllunar og afgreiða það vonandi hratt og örugglega út úr nefndinni.