150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sjúkratryggingar.

298. mál
[13:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu fyrir þetta frábæra frumvarp. Ég skil bara ekkert í því að ég skuli ekki vera á því líka vegna þess að ég gæti ekki verið meira sammála. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ég er alveg á öndverðum meiði við hv. þingmann hvað lýtur að því að skilja hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún er reyndar ekki í salnum til að svara fyrir sig en ég skil hana ekki vegna þess að hér er ákall eftir því að koma til móts við þá sem eru að bíða og hafa beðið eftir að fá að bíða til að komast í aðgerðir. Vandinn vex bara. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er nú verið að færa t.d. inn á Landspítala – háskólasjúkrahús enn meira af störfum Krabbameinsfélagsins. Við höfum séð það í fréttum og ég hef heyrt það sjálf. Ég á vinkonu úti í bæ sem er ekki bara að bíða eftir að fara í fleygskurð vegna brjóstakrabbameins heldur þarf að taka af henni allt brjóstið af því að æxlið vex í henni. Hún er hins vegar látin bíða í einhverja mánuði eftir aðgerðinni vitandi það að í henni vex þetta skrímsli. Hún fær enga þjónustu, ekkert meira. Hún þurfti lengi að bíða eftir að fá þessa greiningu og núna lengist biðlistinn eftir því að konur með brjóstakrabbamein komist í myndatöku á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Er það svona, virðulegi forseti, sem við viljum sjá heilbrigðiskerfið okkar fara, að grundvallarmannréttindum sé gjörsamlega stungið niður í niðurfallið og sturtað niður?

Við eigum rétt á heilbrigðisþjónustu, það er bara í réttarríki, ríki sem vill kenna sig við mannúð. Hjá ríki sem þykist vera í fremstu röð á meðal þjóða hlýtur að vera algjört lágmark að við getum fengið heilbrigðisþjónustu við hæfi — og það strax. Það er fráleitt að setja okkur á biðlista til að bíða eftir að komast á biðlista til að vera á þeim biðlista, að það þurfi að senda okkur til útlanda á mörgum sinnum hærra verði en dygði til að greiða fyrir það og koma okkur strax í aðgerðir hér heima. Hvers lags eiginlega stærðfræðisnillingur kemst að þessari niðurstöðu? Ég veit það ekki en mér finnst ekki mikil stærðfræðikúnst liggja þarna að baki. Ég get ekki ímyndað mér að þeir einstaklingar sem nálgast málin svona átti sig á því hvort tveir plús tveir eru fjórir eða eitthvað allt annað.

Staðan eins og hún er núna og sú stefna sem við erum að taka í heilbrigðismálum er á margan hátt síðasta sort. Fyrsta snerting á alltaf að vera heilsugæslan. Það er alveg frábært. Hversu lengi þarf að bíða eftir þeirri snertingu þegar maður veit kannski sjálfur að maður þarf á sérfræðingi að halda? Menn draga á eftir sér fótinn og eiga samt ekki að fara á slysó. Nei, þeir skulu fara á heilsugæsluna. Það verður einhvern veginn, virðulegi forseti, að reyna að búa um þetta þannig að ekki séu alls staðar árekstrar í kerfinu vegna þess að við erum ekki öll steypt í sama mót. Við erum ekki ein manneskja á Íslandi og öll eins. Við erum eins misjöfn og við erum mörg og greiningar hvað varðar sjúkdóma okkar og annað slíkt eru líka eins misjafnar og þær eru margar. Við þurfum sérhæfða þjónustu og hana á að veita strax, undantekningarlaust. Það á aldrei að spara aurinn og fleygja krónunni í þessum efnum, það á aldrei að láta einstakling vera heima og bryðja verkjatöflur árum saman og fara út af vinnumarkaði með öllu því tapi sem þjóðfélagið verður fyrir samfara því. Svo er líka vitað að einstaklingur sem er frá vinnu og félagslegum samskiptum í langan tíma á mun erfiðara með að koma sér aftur inn í það ferli og það form sem hann var vanur að lifa í áður þegar honum verður loksins — ef einhvern tíma — bætt það líkamstjón sem hann býr við og þau veikindi.

Það er í mörg horn að líta. Ég get nefnt dæmi um Sjúkratryggingar. Við fengum að vita hjá hæstv. heilbrigðisráðherra í haust í óundirbúnum fyrirspurnatíma að 10% af fyrirtækjum sem vilja og þurfa og eiga rétt á að vera í samningum við Sjúkratryggingar Íslands standa út af og það þótti bara allt í lagi. Það þótti bara allt í lagi að ekki hafði verið samið við 10% þeirra sem þurftu á samningum við Sjúkratryggingar Íslands að halda. Ég hef verið í samtali við unga konu — hún er miðaldra í dag. Hún fæddist fötluð og er í hjólastól. Hún er enn að bíða eftir NPA-þjónustu, hún er í hjólastól og hún er að bíða eftir þjónustunni sem við löggiltum hér voða glöð fyrir réttu ári. Þá voru allir voða glaðir yfir því hvað við vorum góð — en við settum kvóta. Hugsið ykkur, við settum kvóta á NPA-þjónustu fyrir fatlað fólk. Það eru bara 90 einstaklingar sem fá en hinir standa út af, einhver sem metur þá og dæmir hverjir fá og hverjir ekki. Ég vildi ekki vera í því dómarasæti. Þessi tiltekna kona sem enn er að bíða eftir NPA-þjónustu hefur verið í sama sjúkrarúmi frá því að hún var unglingur. Hún er búin að grátbiðja um að fá nýtt rúm 40 árum síðar og svarið er einfalt: Nei. Hugsið ykkur, hún fær það ekki neitt. Hún bíður eftir NPA-þjónustu og hún fær ekki þetta rúm. Auðvitað myndu allir stærðfræðingar reikna dæmið öðruvísi og hver einasti maður sem er með allt í lagi í kollinum hlýtur að sjá að það er betra að borga 1 milljón fyrir aðgerð en 3 milljónir. Þess vegna spurði ég hreinlega í fjárlaganefnd á sínum tíma fulltrúa fjármálaráðuneytisins hvort fjármálaráðuneytið sem slíkt þyrfti ekki að hafa eitthvað um það að segja hvernig fagráðuneytin, jafnvel þó að þau séu sjálfstæð, hvert á sína vísu, hefðu ekkert um það að segja þegar það væri svo augljóslega og vísvitandi verið að bruðla með almannafé í tilteknum ráðuneytum að óþörfu.

Það er frábært að þetta mál skuli vera komið hér fram. Ég skil fullkomlega um hvað það snýst og er því hjartanlega sammála. Ég átta mig engan veginn á því hvers vegna þetta var ekki samþykkt á 149. löggjafarþingi, ekki síst miðað við það sem við erum að horfa upp á. Á því ári sem liðið er síðan málið var flutt síðast af hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur höfum við séð svo ekki verður um villst að vandinn vex. Biðlistarnir eru að lengjast. Það er eitt að vilja öfluga miðstýrða heilbrigðisþjónustu þannig að við mismunum engum eftir efnahag til að geta nýtt sér þá þjónustu en svo er allt annað að gera hana þannig úr garði að menn fari á biðlista og það er bara hipsumhaps hvort menn eru hrokknir upp af áður en þeir fá að njóta þessarar frábæru þjónustu. Það er aftur önnur saga. Alvarleikinn finnst mér ekki bara felast í því þegar verið er að taka fólk úr umferð og láta það bryðja töflur með tilheyrandi tilkostnaði, vanlíðan og kvölum á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. Alvarleikinn snýr líka að því þegar menn hafa verið greindir með banvænan sjúkdóm. Hverjum dettur í hug að sá sem er greindur með banvænan sjúkdóm sé sendur heim til sín og sagt að bíða eftir aðgerð í þrjá mánuði á meðan krabbameinsæxlið vex í honum?

Er þetta Ísland í dag, virðulegi forseti? Svarið er: Já. Þetta er sú þróun sem við erum að horfa upp á og að mínu mati, ég fer ekkert ofan af því, er það algjörlega óviðunandi. Þetta er ólíðandi. Þetta er óafsakanlegt með öllu. Svona vinnubrögð mun ég aldrei nokkurn tímann samþykkja.