150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

heilbrigðisþjónusta og málefni aldraðra.

323. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Segja má að hér sé á ferðinni gamall kunningi. Þetta mál hefur komið hingað í þingsali allnokkrum sinnum, fyrst af minni hálfu fyrir, ætli það séu ekki að verða ein tíu ár eða eitthvað svoleiðis, á 139. löggjafarþingi.

Frumvarpið í sinni einföldustu mynd gengur út á að tryggja að þeir sem búa í dvalar- og hjúkrunarrýmum fái val um það hvort þeir verði í einbýli. Ég segi val um það vegna þess að vissulega kunna að vera stöku tilvik þar sem menn óska þess hreinlega ekki að vera einir og þá er ágætt að þeir kostir séu í stöðunni, en í grundvallaratriðum er þetta þó á þennan hátt. Nútíminn, má segja, ætlast til þess að við bjóðum fólki sem við ætlum varanlega búsetu í dvalar- og hjúkrunarrýmum upp á þá kosti að það geti búið sjálfstætt.

Eins og ég kom inn á áðan hefur málið verið lagt fram nokkrum sinnum áður, seinast í óbreyttri mynd á 149. löggjafarþingi. Rétt er að geta þess sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að dvalarrýmum hefur heldur farið fækkandi á Íslandi undanfarin misseri, þá á kostnað hjúkrunarrýma, þ.e. hjúkrunarrýmum hefur allra síðustu misseri heldur fjölgað. Má sem dæmi nefna að nú í þessum mánuði verður opnað nýtt hjúkrunarheimili við Sléttuveg með einum 100 rýmum, nánar tiltekið 99 rýmum, ef ég man rétt.

Staðan er nefnilega sú að smátt og smátt hafa menn verið að vakna til þess veruleika að það kynni nú kannski að vera skynsamlegra að hafa fjölbreytileika í framboði á þeirri þjónustu, eða við getum kallað það vistunarúrræðum fyrir eldra fólk, heldur en bara bjóða upp á varanlega dvöl. Þannig hefur til að mynda núverandi heilbrigðisráðherra lagt töluverða áherslu á aukningu í fjölda á dagvistunarúrræðum fyrir eldra fólk. Það er ekki í íslenskum staðtölum, alla vega ekki mér vitanlega, haldið beinlínis utan um það hver fjöldinn er á rýmum hvað varðar einbýli og tvíbýli, en nýjustu tölur, sem eru tiltölulega aðgengilegar, benda til þess að sennilega séu rúmlega 80% hjúkrunarrýma einbýli og sú tala fer hækkandi. Nú eru til að mynda ekki byggð nein hjúkrunarrými sem ekki eru einbýli þó að víða hagi þannig til, eins og ég gat um áðan, að hægt sé að bjóða upp á tvíbýli í undantekningartilvikum. Hins vegar liggur það fyrir að fjöldi fjölbýla er líklega einhvers staðar um eða innan við 500 og þeir íbúar eru, verð ég að segja, í flestum tilfellum í fjölbýli án þess að hafa beðið um það, búa sem sagt oft og tíðum með einhverjum vandalausum, einstaklingum sem eiga heima á sama hjúkrunarheimili og deila með þeim herbergi.

Ástandið í þessum málum hefur sem betur fer farið batnandi. Eins og ég nefndi áðan eru núna ríflega 80% einbýli. Þau eru að vísu af mjög mismunandi stærðum og gerðum, alveg frá því að vera innan við 10 m² og upp í að vera 35–40 m² þar sem þau eru stærst. En tvíbýlin eru líka sums staðar afar lítil og ef maður beitir venjulegum tommustokk má reikna sig niður í það að prívatrými einstaklinga sem eru á minnstu tvíbýlunum megi teljast vera einhvers staðar á bilinu fimm, sex, sjö fermetrar, sem er afar lítið. Þess vegna er mikilvægt, finnst mér, og út á það gengur frumvarpið í raun, að við setjum okkur hreinlega áætlun um það hvernig við leiðréttum þetta, hvernig við förum í það verkefni að bjóða öllum upp á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Gróflega áætlað má ætla að það kosti um 7 milljarða að byggja þau rými sem þarf. Ef menn horfa til þeirra upphæða sem á hverju ári renna til Framkvæmdasjóðs aldraðra ætti svigrúm hans að duga til að tryggja þessa framkvæmdaáætlun á þeim fimm árum sem frumvarpið nær til.

Eins og ég gat um í upphafi er það náttúrlega ekki nýtt að menn hafi verið að velta þessu fyrir sér og gaman að geta þess að þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, viðraði hugmyndir um þetta fyrir allmörgum árum og í hennar ágætu fótspor hafa síðan margir fetað. Þessa hefur oft verið getið í þingræðum og menn hafa oft séð í fjölmiðlum innslög um það óréttlæti, ef maður getur kallað það sem svo, sem fólk verður fyrir tengt þessu. En eins og ég nefndi líka áðan er mikilvægt að hafa möguleika á einhvers konar sambýli þegar menn vilja það og má geta þess í því samhengi að ég er einnig 1. flutningsmaður að frumvarpi til laga um sambýli maka og sambúðarmaka á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Það er líka mikilvægt því að eins og hv. þingmenn þekkja er það þannig, a.m.k. í sumum tilfellum, að eiginlega má segja að sambúðarslit fólks séu þvinguð þegar veikari makinn þarf að flytjast á hjúkrunarheimili. Þetta getur oft verið fólki afar þungbært. Ég er ekki að segja að það eigi að jafnaði að vera þannig að menn flytji með maka sínum á hjúkrunarheimili, enda má kannski ætla að í grunninn sé það ekki eftirsóknarvert að búa á stað sem er í eðli sínu að stórum hluta til sjúkrastofnun, en aðstæður kunna að vera þannig. Við sem samfélag eigum að taka tillit til þess að þetta getur verið fólki erfitt og þess vegna þarf þessi möguleiki að vera til.

Matsferlið vegna búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum hefur breyst og verið að þróast frá því að matskerfinu var breytt um áramótin 2007–2008. Með þeirri breytingu sem þá varð styttust biðlistar og eftir því sem fram hefur undið hefur biðtíminn heldur styst, þó að það sé auðvitað ekki enn þá eins og við vildum hafa það, þ.e. að fólk geti gengið að hjúkrunarrými vísu á innan við tveim til þrem mánuðum eftir að umsókn þess er samþykkt. Þar er því nokkurt verkefni óunnið en við erum samt á réttri leið, einkum og sér í lagi ef við tökum okkur verulega á í heimaþjónustu, eins og við höfum nokkuð rætt hér áður í þingsalnum, og þá kann þrýstingurinn á hjúkrunar- og dvalarrýmin að minnka og þar með ætti þetta verkefni að verða auðveldara og leysast að einhverju leyti af sjálfu sér. En ég held samt að ekki sé hægt að draga fjöður yfir það að það þarf alveg áreiðanlega einhvers konar innspýtingu eða inngrip af hálfu opinberra aðila. Ég nefndi áðan Framkvæmdasjóð aldraðra í því máli.

Ekki er hægt að skilja við þessa umræðu, finnst mér, öðruvísi en að nefna yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum eldra fólks, sem í ráðherratíð Guðbjarts heitins Hannessonar var komin á nokkurn rekspöl, m.a. vegna þess að sveitarfélögin sáu fyrir sér verulegan fjárfestingarkostnað sem kynni að hljótast af því að þau tækju málaflokkinn yfir án þess að búið væri að leysa þetta með einbýlin. Það m.a. hefur gert að verkum, og áreiðanlega átt þátt í því, að sveitarfélögin hafa, við skulum segja hikað í eftirsókn sinni eftir að fá að taka málaflokkinn yfir. Þó að vissulega séu sum sveitarfélög áfram mjög áhugasöm um það og eins og hv. þingmenn þekkja eru sveitarfélög til sem hafa stigið þessi skref í meira mæli og nægir þar að nefna sveitarfélög eins og Akureyri og Höfn í Hornafirði. Það heitir nú sennilega ekki lengur Höfn í Hornafirði, sveitarfélagið heitir líklega Sveitarfélagið Höfn eða eitthvað þess háttar, það er alltaf verið að hringla með nöfn á sveitarfélögum en við látum það ekki endilega trufla okkur.

En sem sagt, virðulegi forseti, við flutningsmenn frumvarpsins, sem eru ásamt mér hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Inga Sæland, leggjum til að með þessari lögfestingu muni á fimm árum, í framhaldi af samþykkt frumvarpsins, verða tryggt að þeim íbúum á íslenskum hjúkrunar- og dvalarheimilum sem vilja standi til boða einbýli til varanlegrar búsetu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar eftir þessa umræðu.