150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

viðbrögð við kórónuveirunni.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kýs að beina þessari fyrirspurn til forsætisráðherra sem skipstjóra þjóðarskútunnar, sem formanns í þjóðaröryggisráði og sem fulltrúa okkar í þjóðaröryggisráði. Að vísu gæti þessi fyrirspurn, eðli málsins samkvæmt, heyrt líka undir ýmsa aðra ráðherra.

Þessi fyrirspurn er í mínum huga um mál sem er dauðans alvara, um hina svokölluðu kórónuveiru. Nú sjáum við að á Ítalíu er hreinlega að springa út smit, á Norður-Ítalíu. Johns Hopkins háskólinn í Bandaríkjunum uppfærir reglulega fjölda skráðra smita og útbreiðslu þeirra úti um allt sem og dauðsföll og bara á þeim stutta tíma sem við hv. þingmaður héldum þingflokksfund í dag klukkan rúmlega eitt höfðu 15 ný smit verið skráð á Ítalíu. Veiran er komin til Evrópu, það er nokkuð ljóst.

Nú hefur ágætur sóttvarnalæknir komið fram í Kastljóssþætti tvívegis og tjáð sig þar um að það sé ekki spurningin um hvort heldur hvenær þessi veira komi til okkar, því miður. Ég veit að það er verið að byggja hér á ýmsum forvörnum. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað sé verið að gera til að reyna að sporna gegn því að veiran berist til landsins, hvort þær aðgerðir sem er verið að beita í kringum okkur, sóttkví og lokun landamæra og annað slíkt, eigi ekki við um okkur líka eða hvort við séum bara bíða á hliðarlínunni og sjá hvort við sleppum ekki af því við erum svo sérstök. Ég kem með meira á eftir, hæstv. forsætisráðherra.