150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

viðbrögð við kórónuveirunni.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum við eigum að vita hvort við erum smituð og eigum að hafa samband við einhvern. Það er þó a.m.k. vitað að við getum gengið með þessa veiru og verið smitandi í allt að tvær vikur án þess að finna fyrir einkennum. Fyrirspurnin kemur ekki bara í kjölfarið á þessum skelfilegu fréttum sem bárust frá Norður-Ítalíu heldur bara af því að fara í IKEA í gær, bara af því að vera innan um þúsundir manna og um leið og einhver hnerrar verður maður var við að fólk hleypur í allar áttir. Við erum þegar á varðbergi, virðulegi forseti.

Hvernig eigum við mögulega að geta haft samband við einhvern og sagt: Ég er kannski með eitthvað? Hvernig eigum við að grípa til forvarna gagnvart þessu þegar við erum hér að taka inn að lágmarki 30.000 ferðamenn á viku? Við erum að mínu mati rosalega berskjölduð. Mig langaði að vita hvað verið sé að gera til að sporna gegn því að þessi veira berist til landsins frekar en að vera með forvarnir þegar við vitum ekki hve umfangsmikið þetta verður þegar og ef það kemur.