150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

heimild forstöðumanna ríkisstofnana til að hækka eftirlaun.

[15:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í framhaldi af svari hans við skriflegri fyrirspurn um heimild forstöðumanna ríkisstofnana til að hækka eftirlaun starfsmanna sem var lögð fram í framhaldi af ákvörðun ríkislögreglustjóra og er nánar rakið. Ég þakka að sjálfsögðu hæstv. ráðherra fyrir svarið, mjög ítarlegt og gagnlegt. Af svari ráðherrans má ráða að hann telji ríkislögreglustjóra hafa verið innan starfsheimilda sinna þegar hann hækkaði lífeyrisréttindi sjö undirmanna sinna um 48% að meðaltali og að sú aukning lífeyrisréttinda muni kosta skattgreiðendur 360 millj. kr. Virðist sem í svarinu sé gefið í skyn að þessi ákvörðun muni eða kunni að auka lífeyrisréttindi 59 lögreglumanna um 55% og kosta skattgreiðendur 1.910 milljónir, sem er tala sem er í svarinu.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti skýrt það nánar hvernig það megi vera að forstöðumenn ríkisstofnana geti haft heimildir til að breyta samsetningu launa starfsmanna sinna í þeim eina tilgangi að hækka eftirlaun þeirra.

Í annan stað: Hefur ráðuneytið látið kanna hversu margir af starfsmönnum ríkisins njóta fastrar yfirvinnu með svipuðum hætti og yfirlögregluþjónar hjá ríkislögreglustjóra gerðu og hver kostnaðaráhrif þess yrðu ef allar þær greiðslur yrðu færðar inn í föst laun?

Að lokum: Hefur ráðherra hugleitt hvort ástæða væri til að takmarka rétt forstöðumanna ríkisstofnana til að stofna til milljarða króna skuldbindinga fyrir ríkissjóð með þessum hætti?