150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

heimild forstöðumanna ríkisstofnana til að hækka eftirlaun.

[15:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Af svari hans verður ekki annað ráðið en að með nokkrum hætti megi líta svo á að það sé opinn krani á ríkissjóð í gegnum slíkar ákvarðanir forstöðumanna ríkisstofnana, með þeim afleiðingum sem rakið er í svari ráðherra, að einstakir forstöðumenn geti tekið ákvarðanir sem hafa afleiðingar sem hlaupa á hundruðum milljóna, að ekki sé talað um milljarða eins og getið er um í svari hæstv. ráðherra.

Ég hlýt auðvitað að spyrja ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að leita frekari leiða en kemur fram í svari hans til þess að skrúfa fyrir þennan krana. Um leið hlýt ég að spyrja hvort ráðherranum sé ekki áhyggjuefni sú himinhrópandi mismunun í lífeyriskjörum landsmanna sem opinberast í svari hans við fyrirspurn minni þar sem stórir hópar ríkisstarfsmanna eiga þess sýnilega kost að bæta lífeyriskjör sín sem svarar hundruðum þúsunda á mánuði á meðan tekjur þeirra sem treysta á elli- og örorkulífeyri almannatrygginga eru skertar (Forseti hringir.) um hverja krónu sem þeim kann að falla aukalega í skaut, svo sem vegna vinnu eða sölu á gömlu sumarhúsi, svo eitthvað sé nefnt.