150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

bann við svartolíu á norðurslóðum.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga örlítinn orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um svartolíu. Í síðustu viku var haldinn fundur í London á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, um bann við svartolíu á norðurslóðum, þ.e. norðan heimskautsbaugs. Það er bæði bann við flutningum á svartolíu og notkun svartolíu sem eldsneytis. IMO hefur þegar samþykkt slíkt bann fyrir suðurhöf sunnan 66. breiddargráðu. Það hefur komið fram af hálfu Umhverfisstofnunar að til þess að banna svartolíu innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands þurfi samþykkt IMO og það kemur raunar líka fram í svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þar sem hann talar um að snúið sé að ná fram algeru banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands þar sem slíkt þurfi samþykki IMO.

Nú var sem sé haldinn í síðustu viku fundur hjá IMO um þessi mál og mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort eitthvað hafi komið fram á þeim fundi sem gefi ástæðu til bjartsýni og gefur okkur byr í seglin við að losna við þann vágest úr íslenskri efnahagslögsögu sem svartolían er.