150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

bann við svartolíu á norðurslóðum.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og bíð spenntur eftir því að fá að vita hvað gerðist á þessum fundi og hvort okkur miðar ekki eitthvað áleiðis í að banna frekari umferð skipa sem knúin eru svartolíu. Svartolía er óttalegur óþverri, það verður að segjast eins og er. Það eru sótagnir sem losna við bruna svartolíu sem verða til þess að ís og jöklar bráðna og að ógleymdu hinu að þetta mengar loftið og einnig að ógleymdu því hvað getur gerst ef skipsskaði verður og slík olía losnar í sjóinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir auðlindirnar okkar.

Ég vil spyrja ráðherrann í framhaldi af þessu hvort þess sé ekki að vænta að ef IMO gefur grænt ljós á það fari ríkisstjórnin á fullu í að banna svartolíu innan 200 mílna.