150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:06]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það væri hugsanlega margt betra ef hæstv. menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, væri fjármálaráðherra. Hún hefur nýlega lýst þeirri einföldu, augljósu og heilbrigðu hugmynd, sem reyndar kom fram í kosningastefnuskrá Pírata fyrir síðustu tvennar kosningar, að nýta ætti ríkissjóð til að jafna sveiflur í hagkerfinu með því að fjárfesta í innviðauppbyggingu, enda er framleiðsluspenna eini takmarkandi þátturinn í rekstri hagkerfisins. Undirliggjandi kerfislægir þættir í niðursveiflunni eru samt ekki bara keynesískir í þetta skiptið. Í samtölum mínum við forsvarsmenn ýmissa fyrirtækja undanfarið, bæði sprotafyrirtækja og rótgróinna fyrirtækja, hefur það sama verið uppi á teningnum alls staðar: Skortur á fjármagni sem hamlar þróun.

Bankarnir eru að draga saman seglin í útlánum til fyrirtækja almennt og þegar slík lán eru veitt er það gert á himinháum vöxtum. Innlendir fjárfestar fjárfesta mjög varlega í augnablikinu og í takmörkuðum mæli og erlendir fjárfestar fást varla til að líta við Íslandi, að hluta til af ótta við óábyrgt stjórnkerfi og óstöðugan gjaldmiðil. Hvers vegna getur íslenska ríkið átt aðild að Þróunarbanka Asíu en ekki viljað þróunarbanka á Íslandi? Ríkisstjórnin hefur sagst ætla að bregðast við með kríusjóðnum svokallaða en ekki fyrr en mögulega eftir næstu kosningar og þá er alveg óljóst hvernig það verður gert, hvernig fjármögnun verður háttað og hverjar reglurnar verða. Í stuttu máli er þetta óljóst loforð Sjálfstæðisflokksins sem hann þykist ætla að efna eftir næstu kosningar.

Samfélagið þarf núna á sterku hagkerfi að halda, reyndar ekki bara núna heldur alltaf, og það er á ábyrgð ríkisins að stuðla að þeim styrk. Það væri jákvæð tilbreyting ef hæstv. fjármálaráðherra gerði eitthvað annað en að fabúlera um óljósar hugmyndir eins og hann gerði hérna áðan og kvarta yfir klæðaburði fólks eins og hann gerði í síðustu viku og kvarta yfir launakröfum hinna lægst launuðu, sem gerist yfirleitt, (Fjmrh.: Aldrei.) og einbeitti sér þess í stað að því að búa til þennan blessaða stöðugleika sem hann segist alltaf standa fyrir.