150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa gegnu og góðu umræðu, þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni og ágætum hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag.

Flestir eru að tala um kulnun í hagkerfinu og það líst engum á, við erum algerlega meðvituð um það. En af því að ég er með þessa móðurlegu tilfinningu gagnvart ríkissjóði langar mig rosalega mikið að koma einmitt inn á það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, að auka hagræðingu í ríkisrekstrinum. Óneitanlega veltir maður því fyrir sér eftir að heyra frá ráðuneyti hans þar sem er verið að flagga ákveðnum óvissuþáttum, það vanti kannski fjármagn og það séu göt hér og hvar þar sem fjármagn vanti. Þá langar mig að nefna sérstaklega S-lyfin þar sem talið er að vanti rúman milljarð upp á. Við erum að kaupa lyf, bæði almenn lyf og S-lyf, og nú ætla ég að koma með tölur sem ég er næsta viss um að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekkert verið að spá í, fyrir ríflega 30 milljarða kr. á ári. Þar af erum við að fleygja um 250 kílóum af lyfjum á viku. Tonni á mánuði, 12 tonnum af lyfjum á ári. Þegar talað er um að hagræða í ríkisbúskapnum og ríkisrekstrinum þá velti ég fyrir mér hvort við getum ekki byrjað á þessu. Það hefur gjarnan verið sagt að farið sé illa með almannafé og ríkið kunni ekki að reka eitt eða neitt, en ég held að við gætum gert betur.

Annað sem hefur vakið virkilega athygli mína eru 10 milljarðar sem ráðuneytin eyða í að kaupa utanaðkomandi ráðgjafarþjónustu, ráðuneyti sem eru með fullt af sérfræðingum í sínum ranni, ráðuneyti sem eru sannarlega ekki fátæk af mannauði og sérfræðingum. Þegar maður byrjar að spá í það að (Forseti hringir.) auka hagræði í ríkisbúskapnum þá myndi ég mæla með því að við færum að tína saman svona smávegis (Forseti hringir.) — mig langar að koma með svo miklu meira en tíminn er búinn.