150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Það er munur á því að auka útgjöld ríkisins og auka fjárfestingar. Annað blæs út báknið, hitt örvar hagkerfið. En ekki er að sjá að ríkisstjórnin hafi gert mikinn greinarmun þar á þegar litið er til forgangsröðunar aðgerða það sem af er þessu kjörtímabili. Við búum við mikla fjárfestingarþörf í íslensku samfélagi og sú þörf hefur fengið að hlaða utan á sig í tíð núverandi ríkisstjórnar. Eins og hv. þingmaður og málshefjandi hér, Þorsteinn Víglundsson, benti á höfum við lengi talað um áhyggjur af því að efnahagshorfur hafi farið versnandi dag frá degi. Það tekur tíma að koma innviðafjárfestingum af stað. Þær þarf að hefja strax ef markmiðið er að örva hagkerfið núna þar sem við nálgumst óðum botn efnahagssveiflunnar. Þessar fjárfestingar þurfa að vera arðbærar og það þarf að hafa í huga skynsamlega fjármögnun þeirra svo að við lendum ekki í því að ríkissjóður fari að keppa við atvinnulífið um fjármagn, þá væri verr af stað farið en heima setið.

Kannski eru teikn á lofti um að ríkisstjórnin sé að vakna af værum blundi, að hún sé að átta sig á því að útgjaldaaukningar kjörtímabilsins hafi gert allt annað en að stuðla að efnahagslegum umbótum og séu þvert á móti til þess fallnar að dýpka lægðina. Staðan er sú að ekki er mikið í ríkiskassanum og óljóst hvernig til stendur að fjármagna þær tillögur sem eru líka óútfærðar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar en það er sannarlega af nægu að taka. Uppbygging til framtíðar snýst um að skapa verðmæti, snýst um að efla nýsköpun og hugvit og líka um öryggi þjóðarinnar, um samgöngur og hjúkrun.

Herra forseti. Ég vona að við séum ekki fallin á tíma í þessari umræðu en ég er ekki sérlega bjartsýn á að togstreita á milli stjórnmálaflokka og jafnvel innanhússátök þeirra skili þeim árangri sem þjóðin þarf á að halda. Við getum ekki í þessu málefni beðið fram að næstu kosningum. Það er jafnvel erfitt að bíða fram á næsta sumar. Staðan er ansi snúin.