150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:15]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Árið 2010 námu skuldir hins opinbera 85% af vergri landsframleiðslu. Á þessu ári verða skuldirnar 31%. Á sama tíma hafa ríki OECD verið að auka skuldir sínar og eru komin í á annað hundrað prósent af vergri landsframleiðslu. Þetta þýðir að sú stefna stjórnvalda á undanförnum árum að greiða niður skuldir hefur skilað gríðarlegum árangri. Þetta þýðir að stjórnvöld eru betur í stakk búin en ella til að takast á við hugsanlegt bakslag í efnahagsmálum. Erlend staða þjóðarbúsins er fordæmalaus þar sem við erum með hreina eign upp á 25% af vergri landsframleiðslu og auk þess erum við með gjaldeyrissjóð upp á 28%, kannski allt of stóran gjaldeyrissjóð og allt of dýran. Sem sagt: Glasið er a.m.k. hálffullt, herra forseti, þótt sumir vilji líta svo á að það sé hálftómt.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa hvatt til þess að ráðist sé í innviðafjárfestingu, enda er það í takt við það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað undanfarnar vikur og undanfarna mánuði. En það skiptir hins vegar máli í hvers konar fjárfestingar ráðist er. Það skiptir máli að þær fjárfestingar séu arðsamar, ekki síst ef við stöndum frammi fyrir því að við ætlum hugsanlega með einhverjum hætti að hluta til eða öllu leyti að fjármagna þær fjárfestingar með því að skuldsetja ríkissjóð, vegna þess að ef þær innviðafjárfestingar eru ekki arðbærar þá er verið að taka ákvörðun um að taka lífskjör komandi kynslóða að láni fyrir okkur. Gegn því mun ég, hæstv. forseti, standa.