150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hér í dag. Mig langar til þess að koma örsnöggt inn á orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar sem var í pontu á undan mér. Það blasa auðvitað við verkefni um allt í innviðaáætlunum ríkisins sem eru arðbær, þannig að ef það er áhyggjuefnið þá erum við ekki í miklum vandræðum. Ég held að hv. þm. Óli Björn Kárason þurfi ekki að missa svefn yfir því að arðbær verkefni standi ekki til boða, hvað þá í áætlun sem maður verður að gefa sér að ætlunin sé að ganga til og ýta á í framkvæmd.

Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann kom inn á í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að auka hagræði hvað opinberan rekstur varðar. Það er algjört lykilatriði að við náum fram hagræðingu í rekstri þannig að fjármunir sem koma inn í ríkissjóð séu nýttir enn betur en er í dag hvað varðar rekstrarhluta ríkisreikningsins.

Við okkur sem hér erum blasir við að það er ekkert eitt sem ræður og það er ekkert eitt sem veldur þeirri stöðu sem uppi er núna, hvort sem horft er til ferðaþjónustunnar, byggingargeirans eða margra annarra kima atvinnulífsins. Atvinnulausum hefur fjölgað með miklum hraða og við blasir að við verðum að stíga inn í þetta mál með mjög ákveðnum hætti. Ríkisstjórnin verður að taka af skarið þar. Ef umræðan snýst fyrst og fremst um ákvarðanatökufælni hvað það varðar hvernig skuli fjármagna málið þá er alveg sjálfsagt hjá okkur í Miðflokknum að koma að þeirri vinnu og stilla upp plani sem við munum afhenda ríkisstjórnarflokkunum hvenær sem hún er tilbúin að taka á móti því. En kjarnaatriðið er þetta: Það þarf að taka af skarið í þessum efnum, ýta þarf af stað innviðafjárfestingu, það þarf að gera það í arðsömum verkefnum eins og komið hefur fram hérna, en fyrst og fremst (Forseti hringir.) þurfa ríkisstjórnarflokkarnir að vera tilbúnir til að taka ákvörðun. (Forseti hringir.) Það er prinsippákvörðunin sem þarf að taka og hana má ekki geyma.