150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég held að sé gagnleg og mikilvægt að við viðrum skoðanir okkar á því hvar hagkerfið er statt á hverjum tíma. Það er mikilvægt í umræðunni, finnst mér, að það komi fram að hagvöxtur hefur verið í landinu síðastliðin tíu ár í beit og þrátt fyrir allar spár var samt hagvöxtur í fyrra, þótt í litlu væri. Svartsýnin núna snýr kannski að því að hagvöxtur á þessu ári verður líklega mun minni en spáð var og það er ekki gott. En engu að síður er gert ráð fyrir hagvexti. Ég minnist þess raunar að hafa heyrt umræðu um það fyrir einu eða tveimur árum að það gæti nú bara ekki verið að hagvöxtur gæti verið svona mörg ár í beit, það hefði aldrei gerst og myndi aldrei gerast o.s.frv. En nú hefur það gerst og nú er spáð að hagvöxtur verði næstu þrjú árin, ekki mikill en engu að síður í rétta átt.

En hvað eigum við að gera í þeirri stöðu þegar hagkerfið er aðeins að koma niður og vöxturinn er ekki eins hraður og áður? Ég tel að við sem samfélag eigum að einbeita okkur að því að ívilna fyrir það sem við myndum kalla grænar lausnir í hagkerfinu og grænar lausnir í rekstri fyrirtækja og nýsköpun þar. Það væru kannski eðlilegustu skilaboðin að koma með á þessum tímapunkti og það er það sem er í rauninni verið að kalla eftir í samfélaginu. Í innviðauppbyggingunni er mjög mikilvægt að við horfum ekki bara til einhverra stórkarlalegra framkvæmda, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan, heldur horfum við líka til þess hvar þarf að bregðast við með tilliti til þess hvaða hópar það (Forseti hringir.) eru sem verða mest fyrir atvinnuleysinu, að brugðist sé við með þeim hætti að það gagnist þeim fyrst og síðast.