150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í niðursveiflu er afar mikilvægt að ríkið leggi sitt af mörkum til að örva hagkerfið og vinna gegn atvinnuleysi. Það hefði verið best að gera eftir bankahrunið en það var ekki hægt. Fallið var svo hátt og enginn vildi lána okkur, enda vorum við svo skuldsett að það ógnaði sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta gerðist aðeins fimm árum eftir einkavæðingu bankanna og við erum ekki búin að gleyma þeim þrautum og kostnaði sem þjóðin bar af því fúski. Við náðum endum saman eftir mikinn niðurskurð á aðeins fjórum árum og bjuggum í haginn fyrir uppsveifluna.

Vinstri stjórnin var tilbúin með fjárfestingarstefnu og fjármagnaða áætlun til að hrinda í framkvæmd í lok kjörtímabils á meðan enn var slaki í hagkerfinu. Hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, undir forystu þess sama fjármála- og efnahagsráðherra sem þessi umræða beinist að, sló þá áætlun af eftir kosningar 2013. Þar glötuðust tækifæri til innviðauppbyggingar sem hefði komið almenningi sannarlega til góða og við værum að njóta núna.

Við þurfum að grípa til framkvæmda en það er ekki sama hvaða framkvæmda, þó að augljóslega verði að fara bæði í viðhald og nýframkvæmdir í samgöngukerfinu og til að tryggja orkuöryggi. Ekki má gleyma því að það eru ekki bara karlar sem eru atvinnulausir. Kynskipting vinnumarkaðarins er staðreynd og við þurfum að huga að störfum bæði fyrir konur og karla. Einnig er augljóst að fjölga þarf menntunartækifærum úti um allt land. Aðgengi að menntun í niðursveiflu verður að vera gott og jafnrétti til náms óháð búsetu og efnahag. Opnum þess vegna framhaldsskólana og eflum símenntunarmiðstöðvarnar og þá förum við hraðar upp úr lægðinni.