150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir fyrir þessa gagnlegu umræðu. Ég rakti nokkur atriði í fyrri ræðu minni sem skipta máli, þegar við horfum á ríkisfjármálin, að beita í þeim tilgangi að vinna gegn hagsveiflunni. Við verðum auðvitað að horfa á ríkisfjármálin í samhengi við peningastefnu og við vinnumarkaðinn. Nú er sú sérstaka staða uppi að lækkun stýrivaxta, miðlun lægri vaxta, virðist ekki vera að skila sér inn í atvinnulífið með hækkandi atvinnuvegafjárfestingu eins og við vonuðumst til, það birtist alla vega ekki þannig, atvinnuvegafjárfesting er þvert á móti að dragast saman. Við erum komin með opinberar fjárfestingar í sögulegt meðaltal eða rétt yfir. Þegar slakinn er meiri, eins og spáð er núna næstu tvö árin, en vonir stóðu til að hagvöxtur myndi hjarna hraðar við og meira, þá er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvort við þurfum að fara í sérstakt átak. Þá kemur auðvitað til skynsamleg fjármálastjórnun undanfarinna missera þar sem áherslan hefur verið á, allt frá 2011, að greiða niður skuldir, þ.e. sterk staða ríkissjóðs. Á sama tíma hefur okkur tekist að viðhalda eftirsóknarverðum verðstöðugleika. Nú þegar við horfum til þess að fyrirtæki eru að bregðast við með því að hagræða í mannaráðningum og segja upp fólki en ekki verðleggja sig út úr stöðunni er tækifæri til að nýta sterka stöðu ríkissjóðs. Þess vegna hvet ég hæstv. ríkisstjórn til þess að fara í sérstakt átak og fara í arðbærar, skynsamlegar innviðafjárfestingar í flutningskerfi (Forseti hringir.) raforku, í fjarskiptakerfum og í samgöngum sem munu sannarlega skila sér til atvinnuveganna (Forseti hringir.) til lengri tíma og auka framleiðni þar.