150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um stöðu efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar og ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa umræðu og ráðherra. Fjármálaráðherra sagði áðan, ef ég má vitna í hann: Stilla launastigið ekki of hátt. Ég spyr: Er kannski inni í því líka að skatta fátækt meira, þau laun sem eru undir fátæktarmörkum? Lífeyrislaun eru sköttuð ótrúlega hátt og sá skattur hefur hækkað undanfarna áratugi. Það er alger óþarfi. Ef frumvarp Flokks fólksins væri samþykkt þyrfti ekki að skatta laun undir 300.000 kr. og það væri fullfjármagnað.

Síðan er annað í þessu sem er svolítið skrýtið og það er að nú eru vextir í lágmarki. Það liggur við að ríkissjóður gæti fengið lán og það væri borgað með því, það eru svo lágir vextir erlendis. Og ég hef alltaf spurt mig: Hvernig stendur á því að við erum enn þá alltaf í þessum bútasaumi við vegagerð, endalausum bútasaumi? Lítum bara á Reykjanesbrautina núna, það er verið að bútasauma þar og síðan á eftir að taka annan bútasaum þar sem er verið að framkvæma núna, fram hjá Straumsvík inn að Kúagerði. Þetta er svona úti um allt land. Af hverju er engin hagræðing í þessu, og enginn sér það? Spýtum bara í, tökum lán og byggjum upp vegina því að þetta er fjárfesting. Þetta skilar rosalega miklu til þjóðfélagsins því að slysin eru rosalega dýr, ekki bara í peningum heldur líka í tjóni á fólki og fyrir heilbrigðiskerfið. Þarna eigum við að spýta í og við eigum að gera það núna vegna þess að þetta skilar strax hagnaði í þjóðarbúið.