150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir prýðisgóða umræðu. Margt áhugavert hefur komið fram, ekki síst af hálfu stjórnarliða, en upp úr stendur þessi síendurtekna mantra hvað þeim hafi tekist vel upp í rekstri ríkissjóðs. Það er auðvitað afrek út af fyrir sig að hafa keyrt ríkissjóð í halla án þess að komið hafi til efnahagssamdráttar. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. stjórnarliðum. Það er einstætt afrek. Það er nefnilega ekki kominn samdráttur í efnahagslífið enn þá en ríkissjóður er kominn í umtalsverðan halla og hæstv. fjármálaráðherra talaði m.a. um það í umræðunni að mikilvægt væri að ræða hvernig við ætluðum að fjármagna þennan halla. Það er auðvitað vandinn líka þegar verið er að hreykja sér af viðbragði ríkisstjórnarinnar varðandi óvissusvigrúmið sem sett var inn í fjármálaáætlun og -stefnu á síðasta ári. Það var ekki til þess að auka í fjárfestingar heldur fyrst og fremst til að skapa svigrúm fyrir áður áformaða útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar þegar efnahagshorfur voru versnandi. Það heitir óábyrg stjórn ríkisfjármála eins og hún best gerist.

Við þær kringumstæður sem nú eru, þegar ríkisstjórnin er búin að tæma kassann og horfur eru á enn frekari samdrætti í hagkerfinu, er samt sem áður mikilvægt að við spýtum í og brettum upp ermar í opinberum fjárfestingum. Ég tel því að mikilvægt sé að huga að tvennu:

Annars vegar verðum við að leggja til hliðar ágreining um það hvernig við fjármögnum vegaframkvæmdir eða aðrar opinberar framkvæmdir. Við eigum að leggja til hliðar umræðu um einhver sérstök veggjöld eða sérstaka skattlagningu. Þetta verðum við einfaldlega að fjármagna í gegnum lántöku ríkissjóðs.

Hins vegar verðum við að hraða þeim framkvæmdum sem við höfum í hendi og sem eru, eins og ítrekað hefur komið fram í þessari umræðu og mikilvægt er að halda til haga, arðbærar innviðafjárfestingar. Það er vegakerfið okkar, að hraða tvöföldun Reykjanesbrautar, ljúka umbótum á Suðurlandsvegi og svo mætti áfram telja og er efst á blaði, en ekki síður (Forseti hringir.) er mjög mikilvægt að hafa í huga innviði í heilbrigðiskerfinu, bæði byggingu nýs Landspítala (Forseti hringir.) en ekki síður að láta verða að veruleika nauðsynlega uppbyggingu hjúkrunarþjónustu (Forseti hringir.) fyrir aldraða sem hefur algerlega setið á hakanum hjá núverandi ríkisstjórn og er henni til skammar.