150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið lífleg og upplýsandi umræða. Alls konar sjónarmið takast hér á, m.a. um að ríkisstjórnin hafi gert of mikið af því að lækka skatta og síðan er ákall um að við höldum áfram að lækka skatta, þannig að það eru mjög ólík sjónarmið uppi. Ég hef talað um að við höfum búið í haginn og það sýnir sig með því að við höfum gert verulega breytingu á fjármálastefnunni á árinu 2019 þannig að heildarafkoma ríkissjóðs varð um 40 milljörðum lakari en hún hefði þurft að vera samkvæmt eldri fjármálastefnu án þess að steypa ríkissjóði í miklar skuldir. Við héldum einmitt áfram að létta skuldum af ríkissjóði á árinu 2019 þrátt fyrir lítils háttar halla. Hallinn er auðvitað ekki mikill á árinu 2019, að sjá 10–15 milljarða halla í rúmlega 3.000 milljarða hagkerfi.

Það sem flestir virðast vera sammála um núna er að gott sé að taka lán. Þá segi ég bara: Við værum ekki í umræðu um að taka lán ef við hefðum ekki einmitt verið að búa í haginn, tryggja okkur betri lánskjör, greiða upp óhagstæð eldri lán og koma lánahlutföllunum í þá stöðu sem við sjáum í dag. Það sem ég sakna kannski hér í umræðunni er hlutverk okkar við að bæta skilyrði atvinnulífsins í landinu. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að það er þar sem störfin eru að tapast, það er þar sem fjárfesting er að dragast saman. Vissulega getur opinber fjárfesting og aukin opinber umsvif, slaki í opinberum fjármálum, örvað atvinnulífið eitthvað en við verðum að kafa aðeins dýpra og spyrja okkur hvað það er annað sem við getum gert fyrir atvinnulífið á Íslandi til að koma þangað súrefni svo að störfum haldi áfram að fjölga þar. Þessi ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun, aldrei áður verið jafn miklir fjármunir eyrnamerktir nýsköpun, rannsóknum og þróunarstarfi, skattalegir hvatar, nýir sjóðir að verða til til þess að styðja þá starfsemi, samkeppnissjóðirnir efldir o.s.frv. Þar höfum við svo sannarlega verið að sá fræjum til framtíðar og sköpunar á nýjum störfum í framtíðinni.

Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu.