150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mér finnst sannarlega við hæfi að halda áfram þeirri vegferð sem ég hefði tekið mér fyrir hendur, að vara við útbreiðslu kórónuveirunnar svokölluðu, sem hefur verið að herja á hátt í 40 lönd. Það síðasta sem við erum að frétta er að smit hefur greinst á Tenrife. Þar er búið að setja 1.000 manns í einangrun á hóteli og þar af er vitað um sjö Íslendinga. Þar stendur lögregluvörður við hótelið til að koma í veg fyrir að fólk fari þaðan út eða geti komist þangað inn. Í hádeginu kemur fram í fréttunum að öngþveiti er á flugvellinum á Tenerife þar sem fólk er að reyna að komast þaðan burt. En íslensk stjórnvöld, og sóttvarnalæknir, koma fram í sömu fréttum og telja ekki ástæðu til að vara okkur við því að fara til Tenerife.

Virðulegi forseti. Ég get engan veginn áttað mig á þessum sofandahætti. Mér er það algerlega fyrirmunað. Þetta minnir einna helst á söguna sem við getum lesið um spænsku veikina þegar siglt var sofandi að feigðarósi með þeim hörmungum sem þá áttu sér stað. Og hvers vegna skyldum við ekki taka hlutina alvarlega? Hvers vegna skyldum við hlusta á þá sem tala um að varnaðarorð og forvarnir séu hreinlega hræðsluáróður? Ég er að tala um dauðans alvörumál, um veiru sem í raun er óþekkt og á sér enga líka, ekki í sögunni. Við vitum að meðgöngutími hennar er ekki undir tveimur vikum. Við getum gengið um í tvær vikur með þessa veiru án þess að hafa hugmynd um að við séum sýkt, án þess að hafa hugmynd um eitt eða neitt og án þess vísvitandi að vita að við göngum með hana og smitum þar með alla sem við umgöngumst, hvort sem það er í Costco, í Bónus á föstudögum eða IKEA eða hvar annars staðar sem er. Þetta er alvörumál og mér finnst það kærulaus stjórnvöld sem ætla ekki að taka fastar á málunum.

Það eru að fara tvær flugvélar í dag til Tenerife. Við vorum að fá tvær flugvélar frá Tenerife í dag. Við verðum að gera betur.