150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Framlög Íslands til þróunarmála eru enn undir alþjóðaviðmiðum og undir okkar alþjóðlegu skuldbindingum. Þetta er vel þekkt og hefur verið rætt hérna oft. Í þar síðustu viku fór ég í ferð til Úganda ásamt nokkrum öðrum norrænum þingmönnum og þar vorum við að kynna okkur aðeins hvað þróunarsamvinnuféð okkar er að fara í. Við skoðuðum alla keðjuna í heilbrigðiskerfinu þar sem við byrjuðum á birgðastöð þar sem geymd eru bóluefni við bæði algengum sjúkdómum sem allir ættu að vera bólusettir gegn, jafnvel hér á landi, og alveg niður í t.d. bóluefni gegn ebólu. Við skoðuðum sjúkrahús sem er fjármagnað upp á 11 millj. kr. á ári þar sem starfa 14 ljósmæður á fæðingardeildinni og eru tæplega 5.000 fæðingar á ári, þar af 30% með keisaraskurði. Við skoðuðum líka tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands á svæðinu þar sem við höfum verið að starfa í Kalangala-héraði og svo í Buikwe-hérað og erum mögulega að fara að hefja störf í Namayingo-héraði. Þar eru byggðir vatnspóstar og skólar, matreiðsluaðstaða o.fl.

Ég vildi bara koma hér og nefna að það er mikilvægt að við höldum þessu góða starfi áfram og leggjum okkur meira fram, bæði með fjármögnun til Gavi og Global Fund en líka í tvíhliða samvinnunni, með því að hækka framlög okkar til þróunarsamvinnu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. En á sama tíma er óviðunandi að við höfum ekki nema í mjög litlum mæli leitast eftir fríverslunarsamningum við þessi þróunarlönd. Það er vel þekkt að frjáls viðskipti geta gert gæfumuninn og fátækustu löndum heims veitir ekki af smá gæfu. Hérna er tækifæri fyrir okkur að gera betur með einföldum hætti og ég vil endilega hvetja til þess að það verði gert.