150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vildi nú gjarnan nýta þessar tvær mínútur til að lýsa eftir ríkisstjórninni og kannski spyrja hæstv. forseta hvort ríkisstjórnin hafi nokkuð lagt niður störf eða farið í langt vetrarfrí og gleymt að láta þingið vita af því. Það var viðhöfð nokkuð áberandi gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir áramót fyrir það hversu fá mál væru komin fram og hversu seint þau kæmu fram. Svo mikil var gagnrýnin að ríkisstjórnin tók sig til og endurskoðaði þingmálaskrá sína nú í janúar þar sem því var bæði seinkað hvenær leggja ætti mál fram og þeim líka fækkað verulega með svo glæsilegum árangri að af þeim 48 málum sem ríkisstjórnin áformaði að leggja fram í janúar og febrúar eru komin fimm, rétt liðlega 10%. Þess vegna held ég að það sé tilefni til að spyrja: Er þessi ríkisstjórn hætt störfum eða eigum við að bíða? Hún er greinilega ekki í vinnunni því að alla vega bólar ekkert á þeim málum sem hún boðaði að kæmu fyrir þingið. Enn eina ferðina virðist raunin ætla að verða sú að við fáum þessi mál sennilega, sem betur fer mun færri en ríkisstjórnin áformaði, seint og beint ofan í umræðu um fjármálaáætlun sem er handan við hornið. Á sama tíma og ekki bólar á neinum málum frá ríkisstjórninni erum við að fjölga nefndadögum. Ég spyr: Til hvers? Varla er það ætlun meiri hluta þings að hleypa í gegn öllum þeim þingmannamálum sem hafa haldið uppi þingstörfunum hér í allan vetur. Það væri reyndar gleðileg tilbreyting ef sú yrði raunin. En ég býst ekki við að svo verði. Ríkisstjórnin nær ekki einu sinni að svara þeim fyrirspurnum sem til hennar er beint, það tekur óratíma. Meira að segja er einföld fyrirspurn mín sem er orðin tveggja mánaða gömul, um fjölda þeirra ráða og nefnda sem ríkisstjórnin hefur sett á fót á þessu kjörtímabili, enn að telja, og ég bíð. Reyndar er þetta ærinn fjöldi en tveggja mánaða talningartími er nokkuð ríflegur.