150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að ræða hér eitthvað sem ekki er oft rætt í þessum sal: Fugla. Þá á ég nú ekki við furðufuglana sem oft rata hingað inn á þing. En kannski kemur það fólki á óvart að einn íslenskasti fugl Íslands, ef hægt er að komast þannig að orði, hrafninn, er á skilgreindum válista. Krumminn okkar er þar á sama lista og snæuglan og fálkinn. Þrátt fyrir þetta hafa um 3.000 hrafnar verið drepnir hér á landi á hverju ári, 3.000 talsins. Þrátt fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi ítrekað mælst til þess við marga umhverfisráðherra að hrafninn verði friðaður er hrafninn enn einn fjögurra fugla sem má veiða allt árið um kring samkvæmt vef Umhverfisstofnunar.

Herra forseti. Hrafnar eru samofnir íslenskri sögu og náttúru. Krummi á hvorki heima á válista né veiðilistum. Ég vil því kalla eftir afstöðu núverandi umhverfisráðherra til veiða á þessum tignarlega fugli og öðrum fuglum sem eru á skilgreindum válista, en hrafninn er ekki eini fuglinn sem er bæði á válista og veiðilista stjórnvalda.

Herra forseti. Þessi sami umhverfisráðherra heimilaði í síðustu viku veiðar á yfir 1.300 hreindýrum sem eru ein af fáum landspendýrum sem hér lifa. Þá eru um 6.000 íslenskir heimskautarefir, sem er í raun og veru eini raunverulegi landneminn á Íslandi, drepnir hér árlega. Og nú liggur beiðni hjá stjórnvöldum um að heimila veiðar á selategund sem er bókstaflega í bráðri útrýmingarhættu.

Herra forseti. Umhverfisvernd á ekki bara að snúast um að vernda urð og grjót. Umhverfisvernd á einnig að snúast um að vernda hið fábreytilega dýralíf Íslands.