150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil líkt og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson auglýsa hér eftir ríkisstjórn Íslands og spyr eins og hann: Er hún hætt? Ég vil fara með nokkrar tölur af vef Alþingis. Á þessu 150. löggjafarþingi hafa 35 stjórnarfrumvörp verið samþykkt, 33 eru í nefnd og eitt bíður. Tvö þingmannafrumvörp hafa verið samþykkt, eitt verið fellt, 82 eru í nefnd og 11 bíða. 16 þingsályktunartillögur frá stjórn hafa verið samþykktar, þrjár eru í nefnd og af þessum 19 eru 11 EES-mál frá utanríkisráðherra. Sex þingsályktunartillögur frá þingmönnum hafa verið samþykktar, tvær felldar, 71 er í nefnd og 27 bíða.

70% af þeim þingmálum sem fram hafa komið á 150. löggjafarþingi eru frá þingmönnum. Þingmannamál hafa haldið uppi dagskránni á þessu þingi og birtingarmyndin er skýr. Tökum bara dæmi af þessum þingfundi vegna þess að að þessum dagskrárlið loknum er á dagskrá eitt stjórnarfrumvarp. Síðan verða þrjár atkvæðagreiðslur, ein frá þingmönnum úr efnahags- og viðskiptanefnd og tvær frá þingmönnum Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og síðan koma átta önnur þingmannamál. Samkvæmt þingmálaskrá eiga síðan að koma 65 mál frá ríkisstjórninni til þingsins í mars. Þar eru mörg stórmál. Það verður sannarlega hamagangur og læti síðustu dagana ef ríkisstjórnin á að koma þessum málum í gegn. Mér finnst, forseti, meðferðin á þingmannamálum vera óásættanleg og meðferðin er ekki til þess að auka áhrif þingsins eða virðingu eða traust Alþingis eins og þó er nefnt sérstaklega í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Dæmi eru um að nefndarformenn felli niður nefndarfundi frekar en að setja þingmannamál á dagskrá. Þó eru þau meira en 2/3 af þeim þingmálum sem fram hafa komið á þessu þingi. Þessu verður að breyta, forseti. Þetta gengur ekki svona.