150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Merkileg umræða. En í óundirbúnum fyrirspurnum í síðustu viku spurði ég fjármála- og efnahagsráðherra um ákvörðun um að greiða ekki öllum dráttarvexti vegna afturvirkrar skerðingar á lífeyri eins og málsaðili í dómsmáli fékk. Svarið var eins og vanalega útúrsnúningur. Ég spurði hvort ákvörðun um fjárheimildir vegna endurgreiðslu skerðinganna hefði verið tekin í fjármálaráðuneytinu en ráðherra svaraði, með leyfi forseta, „að þegar fólk á kröfu á ríkið þá mun hún innheimtast og það getur ekki staðið á fjárheimildum að greiða lögmætar kröfur á hendur ríkinu“.

Virðulegi forseti. Eftir stendur samt að þeir dráttarvextir sem voru greiddir málsaðila í umræddu dómsmáli vegna afturvirkra skerðinga voru ekki greiddir til allra hinna sem urðu líka fyrir skerðingum. Það er fyrirsjáanlegt að allir sem urðu fyrir afturvirkum skerðingum muni fá þessa dráttarvexti greidda ef þeir fara í mál við ríkið um þá. Einhver tók hins vegar ákvörðunina um að greiða bara dráttarvextina til málsaðila en ekki allra hinna. Einhver tók ákvörðun um að fjárheimild fengist ekki til þess. Afleiðingin af því verður fleiri dómsmál með málskostnaði og ýmsu sem að lokum leiðir til þess að ríkið þarf að greiða umrædda dráttarvexti þrátt fyrir allt og líklega mun hærri upphæð vegna aukinna tafa og málskostnaðar. Þessari einföldu spurningu, hver tók ákvörðunina, var ekki svarað af fjármálaráðherra. Spurningunni um hvort ákvörðunin hefði verið tekin í fjármálaráðuneytinu var svarað með útúrsnúningi.

Ef svarið hefði verið nei, ákvörðunin var ekki tekin í fjármálaráðuneytinu, þá held ég að svarið hefði verið hjá ráðherra einmitt nei, í staðinn fyrir að snúa út úr. Með útúrsnúningi svara þau sem vita upp á sig sökina sem mun kosta ríkissjóð enn meira af almannafé. Þess vegna spyr ég aftur, eins og ég spurði í fyrirspurninni um daginn: Hvers vegna fer Sjálfstæðisflokkurinn alltaf svona illa með almannafé?