150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Atvinnuveganefnd óskaði eftir því við Byggðastofnun á síðasta ári að hún gerði úttekt á strandveiðum og skoðaði hvernig hefði tekist til eftir þær breytingar að veiðarnar voru settar á fasta daga. Við fengum kynningu í atvinnuveganefnd í morgun á þessari úttekt þó að henni sé ekki að fullu lokið og var mjög ánægjulegt að fá þar fram að heilt yfir miðað við þá könnun, sem er enn þá í gangi, en stór hluti þeirra sem tóku þátt í henni eru búnir að skila, er mikil ánægja með þessar breytingar. Menn sem þær stunda telja að strandveiðar skipti miklu máli fyrir heildartekjur þeirra á ársgrundvelli og það skiptir miklu máli fyrir fjölda hafna að strandveiðar séu til móts við aðrar veiðar í viðkomandi byggðarlagi. Hjá mörgum byggðarlögum skiptir sköpum að þær séu til staðar. Óttinn var mestur við þessar breytingar á norðausturhorninu og Austfjörðum en það er gott að vita að þar eru samt vel yfir 50% ánægð með breytingarnar. Það kemur einnig fram að menn hafi óttast að þessi pottur dygði ekki til en hann gerði það vissulega. Það kemur fram að það sem menn hafi kannski viljað gera lagfæringar á sé að flýta því að byrja megi á strandveiðum og líka seinka því í annan endann eftir því hvaða landshlutar eiga í hlut og að hægt sé að velja fleiri daga í mánuði innan 12 daga kerfisins en hægt er í dag. Ég tel að við í atvinnuveganefnd eigum að skoða þetta vel og koma hugsanlega með breytingar sem lúta að þessum tillögum.