150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kórónuveiran geisar um heiminn með tilheyrandi dauðsföllum og ef veiran kemur hingað verður bráðamóttaka Landspítalans í vanda. Ítrekað hefur verið bent á brotalamir spítalans og bent á úrbætur en raunverulegar úrbætur hafa ekki skilað sér. Vandann á bráðamóttöku spítalans og vanda spítalans í heild átti að vera búið að laga. Oft var þörf en nú er lífsnauðsynlegt að gera ráðstafanir strax. Vonandi kemur kórónuveiran ekki, en ef og þegar hún kemur þá dugar okkur ekki að segja: Guð hjálpi okkur. Ábyrgðin er mikil. Nú verða ráðamenn að koma úr skotgröfunum, grípa til allra varúðarráðstafana sem þarf, ekki bara einn gám og smáaðgerðir. Þessi veira bitnar verst á veiku fólki, eldri borgurum, fólki með undirliggjandi sjúkdóma, t.d. lungnasjúkdóma.

28. febrúar á að vígja nýtt 99 herbergja hjúkrunarheimili við Sléttuveg, merkilegt hús sem hefur sennilega, eftir því sem ég kemst næst, verið byggt á mun ódýrari hátt en önnur hús. Þessi 99 rými þarf nú að nýta fyrir bráðamóttöku til að hreinsa út þannig að bráðamóttakan verði tilbúin til þess að taka á þeim vanda sem fram undan er. Ef við gerum það ekki erum við að stinga hausnum í sandinn. Við verðum og eigum að trúa því að umrædd veira komi. Gengið hafa yfir rosalega slæmir veirusjúkdómar sem hafa valdið því að fólk er mjög slæmt í lungum hefur ekki verið í eina viku með þetta, ekki tvær eða þrjár vikur heldur mánuði, og hefst þannig að það liggur við að fólk geti ekki andað. Ég segi fyrir mitt leyti: Hver segir að veiran sé ekki komin? Sýni voru tekin hérna áður fyrr en þá voru ekki til aðferðir til að greina veiruna. Það er ekki nema rétt rúmur mánuður síðan við höfðum það.