150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í dag er 25. febrúar 2020. Allt frá því ríkisstjórnin tók til valda hefur okkar góða starfsfólk heilbrigðiskerfisins sent neyðarkall til ríkisstjórnarinnar um að koma heilbrigðiskerfinu til bjargar, koma starfsmönnum þess til hjálpar í störfum þeirra við að hlúa að sjúkum, ungum sem öldruðum, að fjármagna okkar sameiginlega heilbrigðiskerfi svo hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Í byrjun árs var öllum ljóst að það yrði að bregðast við og það án tafar. Álagið á bráðamóttöku Landspítala er slíkt að því er af vaktstjórum Landspítala lýst sem neyðarástandi. Orðin „fokking dísaster“ voru viðhöfð. Læknar spítalans segja daglegt hættuástand og yfirlæknir smitsjúkdóma óttast stórslys á bráðamóttöku, verði ekki brugðist strax við.

Ríkisstjórnin brást við með því að skipa átakshóp til að fjalla um ástandið, en bara á bráðamóttökunni en ekki ástandið í heilbrigðiskerfinu sem er auðvitað vandamálið. Það hefur verið vanfjármagnað og þannig markvisst vannært undanfarin ár. En nei, ríkisstjórnin vildi eingöngu skoða ástandið á bráðamóttöku og fá um það skýrslu. Átakshópurinn vann hratt og vel og skilaði skýrslu í síðustu viku. En starfsfólkið heyrir ekki neitt. Enn hlaupa þau og hlaupa nótt sem dag til að reyna að koma sjúklingum til bjargar en fá engin svör. Engin skilaboð, ekki neitt frá stjórnvöldum, bara þögnin ein, utan þess að þau eru beðin um að tala ekki um vandann því að það gerir það að sérstakri áskorun fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra að standa með Landspítala.

Herra forseti. Er nema von að maður spyrji sig hvort ríkisstjórninni sé verkefnið e.t.v. um megn? Er ríkisstjórnin svo ósamstiga að hún getur ekki sammælst um nauðsynlegar bráðaaðgerðir til þess að koma heilbrigðiskerfinu okkar til bjargar?