150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þingmönnum hefur orðið tíðrætt um verklag Alþingis og sleifarlag stjórnarflokkanna. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins talaði hér um að magn væri ekki sama og gæði. Það er alveg hárrétt hjá honum. Það væri líka ágætt ef ríkisstjórnin hefði smá ritstjórn þegar að gæðunum kemur, t.d. á framlögðum þingmálaskrám. Ef ætlunin er ekki að leggja fram nema brotabrot af þeim málum sem þar eru ber það ekki vott um góða gæðastjórnun. Ég held að þau gætu farið að vinda sér í það að skera niður eigin málaskrá.

Varðandi þingmannamálin sem hér hafa verið gerð að umtalsefni er líka rétt að geta þess að þingmannamál eru líka mál frá stjórnarþingmönnum. Drjúgur helmingur þingmannamála er frumvörp frá stjórnarþingmönnum þannig að mér þótti nú hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins vega nokkuð að eigin þingmönnum í þeim efnum.

Hitt er hins vegar athugunarefni og áhyggjuefni að hér er mælt fyrir þingmannamálum í gríð og erg og þau eru send til nefnda og þau eru send út til umsagnar. Ég get sem dæmi nefnt að í allsherjar- og menntamálanefnd eru núna 38 mál sem hafa verið send út til umsagnar og umsagnarfrestur er liðinn, allt frá 130 dögum til 99 daga, ef við tökum tíu málin sem elst eru. Það hefur ekki borið neitt á því að það eigi að taka þessi mál á dagskrá nefndarinnar. Það er gríðarleg sóun á tíma Alþingis að vera að mæla fyrir öllum þessum málum til þess eins að láta þau daga uppi í nefndum og gera ekkert með þau þar. Þetta er sérstaklega blóðugt á þeim tíma (Forseti hringir.) þar sem stjórnvöld sjálf geta ekki haldið uppi störfum þingsins með eigin málum heldur treysta á það að fylla upp í dagskrána með þingmannamálum. (Forseti hringir.) Ég held að það sé stór og mikil ástæða til að endurskoða þetta vinnulag þannig að hvorki tíma Alþingis (Forseti hringir.) sé sóað né þeirra sem veita okkur þá virðingu að senda vandaðar umsagnir, að það sé bara til að henda í ruslakörfuna.