150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

neytendalán og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

582. mál
[14:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að við þurfum að lengja frestinn til að fara í þær tæknibreytingar sem fylgdu lögunum um neytendalán og það erum við að gera. Það sem við höfum ekki haft góðan tíma til að ræða innan nefndarinnar og hefðum þurft að fá lengri tíma í eru skilgreiningar, t.d. á rafrænu auðkenni og fullgildri rafrænni undirskrift. Breytingartillagan sem þið hleyptuð áðan á dagskrá með afbrigðum er til þess fallin að útskýra hvað átt er við með lagagreininni sem myndi þá hljóða svona ef við samþykktum breytingartillögu frá hv. þingmönnum Bryndísi Haraldsdóttur og Smára McCarthy og síðan þá breytingartillögu sem ég stend að ásamt hv. þm. Smára McCarthy:

Lánssamningar skulu gerðir skriflega og skulu undirritaðir af neytanda. Sé lánssamningur gerður í fjarsölu skal hann undirritaður af neytanda með fullgildri rafrænni undirskrift eða samþykktur af neytanda sem hefur verið auðkenndur rafrænt gagnvart viðskiptakerfi lánveitanda.

Þarna viljum við hv. þm. Smári McCarthy bæta við: Með rafrænni auðkenningarleið sem hefur hátt fullvissustig.

Þá er búið að segja hvernig auðkenningin á að vera. Við vitum alveg að lög um neytendalán ná auðvitað til bankanna en líka til smálánafyrirtækja. Við þurfum að passa að allir hlutaðeigendur sjái til þess að verði undirskriftin rafræn verði fullvissustigið hátt. Það er ekki nóg að horfa bara til bankanna hvað þetta varðar, við verðum að horfa á smálánafyrirtækin og ef við skilgreinum þetta ekki finnst mér að við séum svolítið að gefa þeim frítt spil, að það sé bara einhvers konar auðkenni sem þau skilgreina sjálf. Við viljum hins vegar hafa fullvissustigið hátt þannig að ég bið ykkur um að athuga þetta í atkvæðagreiðslunni á eftir.