150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

neytendalán og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

582. mál
[14:15]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að bæta við það sem hefur komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum sem er allt hárrétt. Þetta er orðið flókið mál, þetta er bara einn af þeim stöðum þar sem tæknin rekst á samfélagið með miklum hraða og ég hef fullkomna samúð með öllum sem eiga erfitt með að fylgja.

Fyrri breytingartillagan sem við leggjum til held ég að sé óumdeild, þ.e. okkar hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, sem snýst bara um að bæta við orðinu: fullgildri. Seinni tillagan snýst um að „eða-liðurinn“ sem kemur í þessu frumvarpi verði þannig að ekki verði hægt að nota hann sem undankomuleið í tilfelli smálánafyrirtækja til að komast hjá einhverri eðlilegri vottun á auðkenningu þeirra sem fá þannig lán og þar fram eftir götunum.

Þetta orðalag verður til eftir samtöl við nokkra sérfræðinga og snýr að því að reyna að gera hlutina nákvæmlega eins og bankarnir eru að gera þá, að þegar fólk hefur verið innskráð með leiðum sem eru viðurkenndar inn í rafræn viðskiptakerfi geti það afgreitt sig sjálft með eðlilegum hætti. Þetta á ekki að vera íþyngjandi fyrir bankana.

Seinni tillagan held ég að sé góð. Ég er sammála hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að auðvitað eigum við að halda áfram að vinna þetta mál og tryggja að það sé lokað fyrir öll vandamál en í öllu falli erum við að leggja fram þessa síðari breytingartillögu núna í þeim tilgangi að reyna að láta þetta allt saman virka. Þetta er flókið, því miður, og auðvitað hefði verið betra ef við hefðum haft meiri tíma til að vinna þetta. Í öllu falli held ég að þessar tvær breytingartillögur dugi til að ná yfir allt og svo vonandi getum við farið dýpra í prófun með það.