150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

niðurgreiðsla flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda.

512. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt nefndarálit frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um niðurgreiðslu flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar. Með tillögunni er ríkisstjórninni falið að kanna hvort gera megi samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um niðurgreiðslu flugferða ungmenna milli landanna þriggja. Tillagan er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk.

Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að flugfargjöld milli vestnorrænu landanna eru mjög há og að einungis lítill hluti ungmenna í löndunum þremur hafi þar með tækifæri til að ferðast til nágrannalanda sinna og kynna sér menningu þeirra. Til að tryggja áframhaldandi gott vestnorrænt samstarf um sameiginlega hagsmuni sé nauðsynlegt að gera vestnorrænum ungmennum kleift að kynnast nágrannalöndum sínum, menningu þeirra og íbúum. Því er lagt til að ríkisstjórnirnar skoði hvort unnt væri að bæta flugfélögum landanna mögulegt tap sem hlytist af því að koma á vestnorrænum ungmennafargjöldum. Að öðrum kosti gætu vestnorræn ríki komið á fót sjóði sem veitti ungmennum styrki til að ferðast til annarra vestnorrænna landa. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Logi Einarsson, Sigríður Á. Andersen, sú sem hér stendur og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir rita undir álitið með fyrirvara en Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.