150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

596. mál
[14:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 985, frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Megintilefni frumvarpsins er innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1513, um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun 2009/28/EB um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum en tilskipunin hin síðari var innleidd með lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi nr. 40/2013 og reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna og framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti og eftirlit með orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi.

Eitt meginmarkmið tilskipunar 2015/1513 er að draga úr ruðningsáhrifum þeim sem verða ef ræktunarland sem áður var notað til matvælaframleiðslu er tekið undir ræktun orkuplantna og matvælarækt færist á ný landsvæði sem veldur mögulega skógareyðingu eða framræslu mólendis sem hefur mikla kolefnisbindingu. Þannig getur þessi óbeina breytta landnotkun leitt til þess að losun gróðurhúsalofttegunda verður meiri en ella vegna ræktunar orkuplantna.

Til að vinna gegn þessari þróun er reynt að ýta enn frekar undir notkun þróaðs eldsneytis sem unnið er úr úrgangi og þörungum í stað orkuplantna. Slíkt eldsneyti minnkar losun gróðurhúsalofttegunda verulega með lítilli áhættu á að valda óbeinum breytingum á landnýtingu og eru ekki í beinni samkeppni við fóður- og matvælamarkaði um landbúnaðarland.

Meginefni frumvarpsins lýtur að eftirfarandi þremur atriðum: Í fyrsta lagi varðandi hvaða endurnýjanlega eldsneyti megi telja tvöfalt. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2013 kemur fram að endurnýjanlegt eldsneyti sem unnið er úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum sem ekki er unnt að nýta til manneldis eða sem dýrafóður megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 3. gr. laganna. Þau skilyrði lúta að því að tryggja skal að a.m.k. 5% af heildarorkugildi eldsneytis til notkunar í samgöngum á landi á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Lagt er til að fellt verði niður ákvæði 2. mgr. 3. gr. laganna og ráðherra kveði þess í stað á um í reglugerð hvaða tegundir endurnýjanlegs eldsneytis megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 3. gr. Í þeirri reglugerð verður settur fram listi yfir það eldsneyti sem má telja tvöfalt til uppfyllingar skilyrða laganna. Sá listi verður samhljóða nýjum XI. viðauka tilskipunar 2009/28 sem bætist við með gildistöku tilskipunar 2015/1513. Ástæða þessarar breytingar er að nauðsynlegt er talið að skilgreina með skýrari hætti hvaða eldsneytistegundir teljast hafa tvöfalt vægi í framlagi til markmiðs laganna. Í ljósi tækniþróunar hefur á undanförnum árum fjölbreyttara úrval endurnýjanlegs eldsneytis komið á markað sem nýtist í fleiri ökutækjum en áður og ber löggjafinn að taka mið af því.

Í öðru lagi: Niðurfelling skyldu söluaðila eldsneytis til að tilgreina á sölustað ef hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis er meira en 10%. Hér er lagt til að felld verði niður sú krafa sem kemur í 5. mgr. 3. gr. laganna að ef hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis sé meira en 10% af rúmmáli eldsneytisblöndu skuli slíkt vera tilgreint með skýrum hætti á sölustað. Þetta er í samræmi við niðurfellingu samsvarandi ákvæðis í tilskipun 2009/28 með gildistöku tilskipunar 2015/1513. Almenn upplýsingaákvæði um verð- og eldsneytismerkingar á sölustað er að finna í 7. gr. tilskipunar 2014/94/ESB um uppbyggingu grunnvirkja fyrir óhefðbundið eldsneyti sem ætlunin er að innleiða með breytingum á reglum Neytendastofu nr. 385/2007, um verðmerkingar á bifreiðaeldsneyti sem hefur stoð í lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Í þriðja lagi varðandi tímafresti söluaðila og Orkustofnunar vegna skýrslugjafar: Hér er lagt til að tímafrestur söluaðila eldsneytis til að gera Orkustofnun grein fyrir magni og hlutfalli alls endurnýjanlegs eldsneytis sem þeir selja til samgangna á landi á almanaksári verði lengdur um mánuð. Frestur verði tveir mánuðir í stað eins. Ástæða þess er að reynslan af skýrsluskilum undanfarinna ára er sú að tímafrestur er of skammur og gögn því ekki alltaf tiltæk þegar kallað hefur eftir þeim. Er breytingin því til hagræðis fyrir söluaðila. Jafnframt er lagt til að tímafrestur Orkustofnunar til að gefa út yfirlit um heildsölu eldsneytis verði með samsvarandi hætti lengdur um mánuð. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi teljandi áhrif á atvinnulíf eða stjórnsýslu né fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. Mögulega gæti frumvarpið haft í för með sér að innlent eldsneyti sem unnið er úr úrgangi verði notað í meira mæli og hvetji mögulega til nýrrar framleiðslu, t.d. þörungaræktunar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.