150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

596. mál
[14:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hér er svo sem ekki um stórt mál að ræða en ég komst ekki hjá því að taka eftir því, sem ég tek stundum eftir þegar við ræðum EES-mál, að þetta er þó ljómandi fínt mál. Ég veit ekki með 2. gr. en hún er ekki til komin af neinum góðum ástæðum í þeim skilningi að þær séu jákvæðar. En þær eru alveg skiljanlegar og í sjálfu sér ekkert við þær að athuga. Það tekur bara tíma að gera hlutina og sjálfsagt að veita þann tíma sem þarf til. Hvað varðar 1. gr. er það heldur ekki stór breyting en hins vegar er hún til komin til að uppfylla tilskipun nr. 2009/28 og hún er 47 bls. og felur í sér, eins og aðrar tilskipanir, ansi viðamiklar kröfur sem eru lagðar á hendur íslenska ríkinu, þar af sumar bindandi. Enn og aftur sé ég að við erum hér á hinu háa Alþingi að leggja fram mál sem enginn teljandi ágreiningur er um. Ekki er að sjá að neinn komi hér upp í pontu og æpi „landráð“ eða að verið sé að „selja auðlindirnar okkar úr landi“ eða eitthvert álíka bull. Af góðri ástæðu er það þannig. Það er vegna þess að frá Evrópu og í gegnum EES-samstarfið koma hingað trekk í trekk mjög góðar tilskipanir og góðar reglugerðir sem vissulega binda okkur til að gera þá góðu hluti sem í þeim tilskipunum og reglugerðum er að finna.

Eins og ég segi: Þetta er ekki stórt frumvarp eitt og sér en samhengi þess er gríðarlega stórt og þar á meðal tilskipunin sjálf og reyndar allt það tilskipana- og reglugerðarfargan, leyfi ég mér að segja, sem varðar orku- og loftslagsmál.

Virðulegi forseti. Ég stenst ekki mátið að lesa hér upp úr 1. gr. þeirrar tilskipunar vegna þess að mér þykir hún áhugaverð fyrir alla umræðuna í kringum EES og þá sér í lagi orkumál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með þessari tilskipun er komið á sameiginlegum ramma um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Með henni eru sett bindandi, landsbundin markmið um heildarhlutdeild orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum í heildarorkunotkun og um hlutdeild orku í samgöngum frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Í henni er mælt fyrir um reglur um tölfræðilegan flutning milli aðildarríkja, sameiginleg verkefni milli aðildarríkja og með þriðju löndum, upprunaábyrgð, stjórnsýslumeðferð, upplýsingar og þjálfun og aðgang að raforkudreifikerfinu þegar orkan kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Með henni er komið á viðmiðunum um sjálfbærni fyrir lífeldsneyti og fljótandi lífeldsneyti.“

Virðulegur forseti. Þetta er mjög gott ákvæði. Þarna stendur bindandi og það er sameiginlegur rammi. Ég er vitaskuld að nefna þetta hér í ákveðnu samhengi. Það er orðræðan sem hefur átt sér stað hér á Íslandi, sem allir virðast reyndar vera búnir að gleyma akkúrat núna, um þriðja orkupakkann og allt sem varðar orkumál, loftslagsmál og ESB-mál, en þetta mál varðar öll þau atriði. Þótt að frumvarpið sem slíkt sé ekki efnisríkt þá er samhengið yfirþyrmandi og öskrar upp í opið geðið á manni ef maður ætlar að fara að skoða þessar tilskipanir og reglugerðir efnislega sem við erum að setja lög vegna.

Áskorunin í loftslagsmálum í dag er pólitísk. Það eru tæknilegar áskoranir, það eru efnahagslegar áskoranir og það eru þekkingarfræðilegar áskoranir sem verða sífellt meiri. En áskorunin sem mun ákvarða hvort okkur tekst sem dýrategund að vinna bug á þeirri ógn sem að steðjar, alla vega þannig að við sleppum með skrekkinn út þessa öld í það minnsta, er pólitísk. Hún er pólitísk af þeirri ástæðu að við sjáum stjórnmálaleiðtoga úti um allan heim, sem betur fer bara minni hlutann hér á Íslandi eins og er, og hluta af minni hlutanum í þokkabót, láta eins og loftslagsbreytingar séu ekki í alvöru rosalega mikil ógn eða þá að það sé ekki alveg ljóst að þær séu af manna völdum eða að það eigi ekkert að vera að fríka út yfir þessu; við skulum bara anda rólega og taka hlutunum af ró. Það er orðræða sem gengur svo sem alltaf upp en á einhverjum tímapunkti er tígrisdýrið að öskra framan í andlitið á manni og þá er ekki tími til að slappa af og hugsa málið til enda. Þá gerir maður sitt besta til að lifa af. Á einhverjum tímapunkti lendum við sem dýrategund í því gagnvart loftslagsvánni.

Nú er það eflaust mjög flókin spurning að finna út úr því nákvæmlega hvenær sá tímapunktur kemur. En við höfum svolítið mikið af gögnum um það, við höfum svolítið mikið af umræðu um það og mikið af vísindalegum rannsóknum um það, alþjóðlegum, sem eru gerðar af fólki af alls konar tegund, af alls konar kynjum, alls konar trúarbrögðum, frá alls konar landshlutum, frá alls konar löndum með alls konar mismunandi sýn á lífið og tilveruna, íhaldssama og frjálslynda, allt þar á milli og hvorugt. Niðurstaðan af vísindalegu starfi alls þessa ólíka fólks með mismunandi hagsmuni úr mismunandi áttum er þessi: Loftslagsváin er yfirþyrmandi, hún er hér í dag og við verðum að gera róttækar og miklar og fordæmalausar breytingar á öllu okkar samfélagi til þess að halda henni innan þeirra marka sem okkur gæti mögulega þótt skynsamlegt. Það er ekkert smáræði.

Virðulegi forseti. Nú er ekki endilega ástæða til að umbreyta því orðalagi að best sé að fríka út og fá taugaáfall en við ættum að taka það alvarlega. Þar koma orkumál Íslendinga inn á tvennan hátt í það minnsta. Það er annars vegar samstarf okkar í orkumálum almennt, sem er auðvitað þungamiðjan í því sem var hér til umræðu í hinum svokallaða þriðja orkupakka. Þriðji orkupakkinn í dag kemur okkur frekar lítið við, snýst aðallega um samkeppnissjónarmið, neytendavernd, gegnsæi og eitthvað því um líkt en auðvitað þvælist alltaf fyrir í þeirri umræðu blessaður meintur sæstrengurinn, þ.e. þau meintu áform einhvers staðar að leggja sæstreng til Evrópu. Sú umræða minnir oftast á umræðu um meðvitað landráð eða því um líkt. Það má vel vera að það sé ekki góð hugmynd og reyndar er ég þeirrar skoðunar sjálfur að það sé ekki góð hugmynd á þessum tímapunkti að leggja sæstreng til Evrópu til að tengja raforkumarkaðina. Ég tel það í dag ekki samræmast efnahagslegum hagsmunum Íslands og sé ekki fram á það í fljótu bragði í það minnsta, eftir þá skoðun sem ég fór í við umræðu um þriðja orkupakkann, að það hafi teljandi áhrif á loftslagsmál. En þetta eru hlutir sem skipta máli, þetta eru hlutir sem geta breyst. Við eigum alveg að geta rætt slík mál yfirvegað án þess að fríka út og án þess að fá taugaáfall yfir afhendingu auðlinda, landráði eða arðráni eða hverju öðru sem fólk beitir sér fyrir í þeirri umræðu á hverjum tíma. Samvinna ríkja í loftslagsmálum skiptir öllu máli í því að ná fram þessum markmiðum. Sæstrengur á að sjálfsögðu að vera hluti af því samtali. Að sjálfsögðu ætti ekki að þurfa að rífast um að það ætti að vera hluti af samtalinu. Svo er niðurstaðan ekkert endilega sú að það sé skynsamlegt að leggja sæstreng sem fyrr greinir.

En það er annar þáttur sem varðar íslensk orkumál sérstaklega og það er hversu vel við þurfum að standa okkur. Íslendingar eru vanir því að heyra þá möntru síendurtekna að við séum með svo hreint land og við séum svo æðisleg, með svo hreina orku og frábæra orku að við þurfum lítið að gera í þessu. Að einhverju leyti er það satt en þó fer það eftir því hvernig það er mælt, hvort flugið sé tekið inn í og fleira í þeim dúr. En eftir stendur pólitíska áskorunin í heiminum: Sú staðreynd að við erum ekki með stjórnvöld í Bandaríkjunum eða Kína eða í Rússlandi eða Brasilíu sem sýna vandamálinu þann skilning sem þarf til þess að við getum tekist á við það. Það þýðir að okkur dugar ekki að standa bara við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Okkur dugar það ekki. Við getum ekki leyft okkur það sjónarmið að svo lengi sem við stöndum við Parísarsamkomulagið og Kyoto-bókunina, og fleiri markmið sem við setjum okkur, séum við bara í góðum málum, að við séum að skila okkar og restin sé á ábyrgð annarra, vegna þess að hinir axla ekki sína ábyrgð. Það er bara pólitíski raunveruleikinn í dag.

Ég er ekki bjartsýnni maður en svo að ég sé ekki mikil merki þess að núverandi forseti Bandaríkjanna verði kjörinn burt í komandi kosningum þar. Enn fremur bendir tölfræðin um viðhorf fólks hér á Íslandi ekki til þess að skilningur á loftslagsmálum sé að aukast, þvert á móti. Það fjölgar í þeim hópi sem telur sig ekki hafa fengið viðunandi upplýsingar þess efnis að loftslagsbreytingar séu yfirþyrmandi, muni valda stórtjóni, séu reyndar þegar farnar að valda tjóni, og að þær séu af manna völdum og að við þurfum að bregðast mjög hratt og mjög ákveðið við til að sporna við frekari hörmungum.

Það er mjög alvarleg staða, virðulegi forseti, og svo sem ekki nýtt að manneskjur komi sér ekki saman um hvað sé satt. Hin ótrúlega flóra trúarbragða ætti að sýna okkur fram á það með óyggjandi hætti að hægt er að sannfæra fólk um ótrúlegustu hluti og algjörlega án allra staðreynda og algerlega þvert á við það sem fólk skynjar sjálft. Þar er ég ekkert að gagnrýna ein trúarbrögð umfram önnur. Ég bara bendi á að manneskjur eru almennt ekkert sérstaklega góðar í því að greina satt frá ósönnu, hafa aldrei verið og eru ekki í dag. Þess vegna er vísindaleg aðferð svo mikilvæg. Þess vegna er svo mikilvægt að taka mið af staðreyndum og gögnum, hlusta á rök en ekki bara tilfinningar og ekki að nálgast pólitísk markmið eins og loftslagsbreytingar út frá tímabundnum pólitískum eða jafnvel efnahagslegum hagsmunum heldur verðum við að hugsa hagsmunina í stærra samhengi; hagsmuni okkar allra sem einstaklinga af dýrategundinni homo sapiens, og jafnvel þó að leitað væri út fyrir það mengi.

Þetta kemur ofan á það að ekki lítur út fyrir að við séum að ná markmiðum, og aftur tala ég í stóra samhenginu, kannski aðeins minna núna, ég er að tala um markmið Evrópuráðsins, kannski er ekki öll dýrategundin undir, ég er að tala um markmið stofnunar sem fjallar um málefni um það bil 7% dýrategundarinnar. Það lítur út fyrir það nú í desember að markmiði Evrópuráðsins um að hlutfall endurnýjanlegrar orku í Evrópu verði 32% af heild náist ekki, að 40% lækkun í losun útblástursgróðurhúsalofttegunda miðað við 1990 náist ekki fyrir 2030, verði nær 30%, sem er ekki nóg. Margir vilja meina að hún þurfi að verða miklu meira en 40%, sem er dregið úr, sér í lagi þegar við lítum aftur á hina pólitísku áskorun sem er sú að leiðtogar stóru ríkjanna sem virkilega skipta máli, eins og Kína, Bandaríkjanna, Brasilíu og Rússlands, standa sig ekki í stykkinu gagnvart þessum vanda vegna þess að þeir líta til efnahagslegra og pólitískra hagsmuna til skamms tíma en ekki langtímahagsmuna okkar allra, sem eru líka pólitískir og efnahagslegir langtímahagsmunir okkar allra. En hver manneskja lifir bara svo lengi þannig að með eigingirninni einni saman má fórna hagsmunum fleiri til lengri tíma, þ.e. sé leiðtoginn þannig innrættur sem þessir leiðtogar eru bersýnilega. Því er engin ástæða til bjartsýni, virðulegi forseti, bara nákvæmlega ekki nein.

Þess vegna segi ég um þetta ágæta mál sem er hér til þess að uppfylla annars ágæta tilskipun, agnarsmáan hluta af henni að vísu: Við verðum að ganga lengra. Ef Ísland ætlar virkilega að láta að sér kveða í loftslagsmálum verðum við að setja okkur það markmið að vera nógu góð og ekki bara það heldur að verða best. Við eigum að vera best. Við eigum að beita öllum þeim krafti sem við mögulega getum notað til rannsókna og mennta og vísindastarfs til þess m.a. að vinna bug á þessum vanda. Þar er ansi margt sem kemur til. Orkumál eru mjög stór og umfangsmikil, snerta á ótal sviðum ef ekki hreinlega öllum. Það hvernig við nýtum orku snertir ótal iðnir ef ekki allar. Það skiptir öllu máli að fram komi nýjar hugmyndir og þær séu rannsakaðar í þaula og komist hratt út í nýsköpun og verði hluti af hagkerfinu til þess að við eigum einhverja möguleika á að ná þessum markmiðum. Markmiðin sem t.d. eru sett fram í síðustu IPCC-skýrslunni frægu frá Sameinuðu þjóðunum gera ráð fyrir tækniframþróun sem ekki er enn fram komin, athugið það. Þau gera ráð fyrir tækniframþróun sem er ekki enn fram komin. Það lítur út fyrir að við gætum náð þangað og með viðunandi stuðningi við vísindi og menntun er hugsanlegt að við komumst þangað, en við erum ekki einu sinni komin þangað. Því er engin ástæða til bjartsýni í þessum efnum, virðulegi forseti.

Það hefur verið sagt áratugum saman að við verðum að spýta í lófana og byrja strax, gera stórfenglegar breytingar strax til að verja okkur gegn þessum hörmungum. Þessi umræða hefur verið í gangi allan þann tíma og það sem við stöndum frammi fyrir eykst sífellt. Hörmungarnar sem við sjáum fyrir að verði aukast sífellt vegna þess að við höfum hunsað þetta ákall í allan þennan tíma. Ég veit því ekki hvort ég á að fagna þessu máli, það er svo sem ekkert voða mikið í þessu efnislega, hvorki til að fagna né bölva, þetta eru frekar tæknileg atriði, en tilskipunin sem frumvarpið á uppruna sinn í veitir heildarsamhengi og mér fannst ekki stætt á öðru en að nýta tækifærið hér við umfjöllun þessa máls að vekja athygli á og minna á loftslagsvandann sem okkar stærsta sameiginlega vanda sem við stöndum frammi fyrir sem dýrategund í dag. Við megum ekki hætta. Við megum ekki bíða lengur með að spýta í lófana og gera það sem við höfum vitað áratugum saman að við þurfum að gera.