150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

viðhald og varðveisla gamalla báta.

308. mál
[15:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um tillögu til þingsályktunar um viðhald og varðveislu gamalla báta. Ég mátti til með að koma aðeins inn í þessa umræðu þar sem mér er málið skylt að því leyti að maðurinn minn hefur staðið í því að gera upp gamlan bát sem fellur ekki innan þeirra marka sem hér eru nefnd, að bátar eldri en frá árinu 1950 teljist forngripir, því að hann er fjórum árum yngri, er frá 1954. Þegar honum var lagt, og það var ekki fyrr en árið 2012, var hann elsti báturinn sem stundaði útgerð og var á handfæraveiðum. Þetta er lítil trilla.

Þetta er risaverkefni sem fólk færist í fang og eins og við þekkjum eru það gjarnan einstaklingar sem hafa farið af stað með þau. Við sáum því miður bát í Vestmannaeyjahöfn fara niður í vonda veðrinu um daginn sem hafði einmitt verið endurgerður af hálfu hollvinasamtaka og einstaklinga. Það þarf að geyma þessa báta inni eða í sjó og það getur verið kostnaðarsamt.

Ég get tekið undir mjög margt sem hv. þingmaður fór yfir varðandi það að þessum hluta menningararfsins okkar hefur verið misvel sinnt. Sannarlega má segja að sum söfnin okkar, t.d. Síldarminjasafnið á Siglufirði, í minni heimabyggð, hafi fengið drjúgan stuðning til að gera upp og sjá til þess að hægt sé að varðveita þar báta. Það kostaði blóð, svita og tár eins og öll svona starfsemi sem snýr að menningu hefur kannski gert meira og minna í gegnum tíðina. Þar er að finna stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og margar tegundir af bátum eru þar inni. Ég held að þeir sem fara í þessa vinnu geri það einmitt í þeim tilgangi. Maður hefur séð að þetta vekur athygli. Báturinn sem ég ræddi hér áðan stendur í miðbæ Ólafsfjarðar, við kaffihúsið, og vekur þar athygli þar sem þetta er lítil trilla og fólk veltir fyrir sér, ekki síst unga fólkið og krakkarnir, hvort nokkur hafi yfir höfuð verið til sjós á svo litlum bát. Það er líka partur af því að segja söguna, hvernig forfeður okkar komust af og hvað þeir höfðu til þess.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess með hvaða hætti best er að gera þetta, hvort það er með því að búa til sérstakan sjóð, eins og er fólgið í þessari tillögu, eða eins og í tillögunni sem kom fram um daginn þar sem lagt var til að stofnaður yrði starfshópur. Allt að einu er ég sammála því að við þurfum að fara að huga að þessum þjóðararfi okkar og hvernig við ætlum að halda utan um hann. Ég held að það sé það sem yfirvöld þurfa að fara vel ofan í og skoða, hver sem tekur það að sér. Þetta er þverfaglegt og gæti tilheyrt mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Ég held að þetta sé alveg þess vert. Það á auðvitað ekki að gerast, eins og hér er vitnað í, að tveir áratugir líði frá því að samþykkt er ályktun þess efnis að við ætlum að koma vernd og varðveislu gamalla báta og skipa í örugga höfn, eins og sagt er í tillögunni, og að 20 árum seinna séum við enn að tala um sama hlutinn. Það er nokkuð sem við eigum ekki að láta gerast og auðvitað vitum við að víða liggja bátar undir skemmdum ef við hugum ekki að því.

Í tillögunni er nefnt Byggðasafnið á Hnjóti. Ég þekki aðeins til þess, þar hefur Siglfirðingur verið duglegur að endurgera gamla báta. Hann hefur svo sem fengið til þess styrk en líka eytt öllum frístundum sínum í mörg ár í að smíða báta. Vatnsdalsbáturinn er sá fyrsti sem hann bjó til og síðan er hann búinn að búa til annan. Þetta eru bátar sem eru sjósettir, þeir eru ekki bara settir inn í geymslu eða á eitthvert safn. Þriðji báturinn sem hann gerði var töluvert öðruvísi en hinir þar sem talið var að verið væri að búa til bát sem stundaði millilandasiglingar á miðöldum. Þessi maður hefur grúskað mikið, leitað eftir teikningum og rituðum heimildum og lagt gríðarlega vinnu í að endurgera það sem við hefðum annars tapað. Það er mjög virðingarvert.

Ég tek undir að til þess að við töpum ekki meiru, hvorki þekkingu né þeim bátum sem við getum þó lagað, gert upp eða haldið við, lýsi ég yfir stuðningi við það að þessi mál verði tekin til gagngerrar skoðunar þannig að við upplifum ekki 20 árum eftir þessa umræðu að við séum enn á sama stað.