150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

viðhald og varðveisla gamalla báta.

308. mál
[15:21]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta mikla þjóðþrifamál enda er ég meðflutningsmaður þess og einarður stuðningsmaður. Ég vil líka taka undir hvatningarorð ræðumanns á undan mér, hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Það er ekki með öllu vansalaust hvernig við Íslendingar höfum umgengist sjávarútvegssögu okkar, menningarsögu, atvinnusögu. Að sauðkindinni ólastaðri er það nú svo að það var þorskurinn sem hélt lífinu í þjóðinni í gegnum aldirnar fremur en blessuð sauðkindin. Það segir kannski sína sögu um samband Íslendinga við þorskinn að þorskurinn var um aldir tákn Íslands. Danir hálfpartinn þröngvuðu þessu tákni landsins upp á Íslendinga en það hafðist að breyta því eftir gríðarlega baráttu, mjög mikla þjóðernisbaráttu á seinni hluta 19. aldar þar sem maður gekk undir manns hönd og allir lögðust á eitt að útrýma þessu niðrandi tákn Íslands sem talið var, og í staðinn var fenginn ránsfugl, fálki, sem þótti gefa glæsilegri mynd af hinum sanna íslenska þjóðaranda og vera verðugri fulltrúi Íslands. En auðvitað var það ekki svo, auðvitað átti þorskurinn miklu frekar heima sem tákn okkar í skjaldarmerkinu en fálkinn.

Evrópa er full af gersemum og full af söfnum sem eru full af gersemum, bæði gersemum sem koma úr sögu Evrópuþjóða og einnig gersemum sem Evrópuþjóðir hafa gripið ránshendi víða um lönd í landvinningum sínum. Það er margt sem gleður augað þegar maður gengur um evrópsk söfn og raunar enginn endi á þeirri miklu auðlegð sem þar er. En því er ekki alveg að heilsa hér á landi við okkar auðlegð í sögu. Hún er fyrst og fremst á bókum, menningarsaga okkar er á bókum og það er fátt sem við eigum sem er til menja um atvinnusögu okkar og menningarsögu og listasögu. En við eigum sum sé enn þá nokkra báta sem eru vitnisburður um atvinnulíf. Þeir eru vitnisburður um það sem hélt lífinu í þjóðinni. Þeir eru vitnisburður um hugrekki þeirra manna sem lögðu líf sitt og limi í hættu við að sækja lífsbjörgina. Þeir eru tákn um það besta í sögu okkar og líka margt það hræðilegasta vegna þess að þetta samband okkar við hafið kostaði gríðarlegar mannfórnir. Bátarnir eru líka tákn um íslenskt listfengi, tákn um íslenskt hugvit sem verður til við það að kanna sjólag, kanna það hvernig hafið hagar sér og laga sig að hafinu og kunna að starfa á hafinu.

Mér finnst það vera skylda okkar sem erum nú á dögum að varðveita eins og kostur er þá báta sem enn eru til og sýna þeim allan sóma. Það hefur komið fram hugmynd um að hér verði skipaður starfshópur um þetta mál. Við eigum sem sagt að horfa á báta grotna niður og síðan skipa starfshóp sem á að horfa saman á þessa báta grotna niður, eins og ekki sé nóg af starfshópum hér að störfum í því mikla hópastarfi sem landstjórnin er nú orðin. Ég held að sú leið skili ekki því sem sem þjóðin vill sjá og ég held að vilji þingheims standi líka til, þ.e. að bjarga snarlega þessum menningarverðmætum.