150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er engu nær um ástæður andstöðu hv. þingmanns við þessa tillögu. Það hlýtur að vera jákvætt í eðli sínu að einfalda regluverkið. Það hlýtur að vera jákvætt í eðli sínu ef við erum hlynnt vatnsaflsvirkjununum og sér í lagi minni vatnsaflsvirkjunum sem geta framleitt rafmagn með umhverfisvænum hætti. Nú skal ég láta af því að tala um VG sem heilan flokk enda er þar ýmislegt í gangi sem ég er ekki í aðstöðu til þess að alhæfa um. En það sem ég var að gagnrýna í málflutningi hv. þingmanns er að hv. þingmaður talaði um einhliða nálgun í þessari þingsályktunatillögu en ég sé hana einmitt ekki sem einhliða. Mér finnst það hins vegar vera einhliða í málflutningi hv. þingmanns að segja að vatnsaflsvirkjanir séu eitthvað sem sé í eðli sínu rosalega varhugavert út frá umhverfissjónarmiðum en taka ekki með í reikninginn áhrif þeirra í baráttunni við loftslagsvandann. Mér finnst vanta þá áherslu líka. Jafnvel þó að ég geti verið sammála hv. þingmanni, (Forseti hringir.) sem ég er eflaust, um mikilvægi þess að kanna til hlítar áhrif virkjana, 10 MW eða meira, (Forseti hringir.) hefur það samt sem áður hlutverki að gegna í náttúruvernd að reisa virkjanir og mér finnst það vanta í málflutning hv. þingmanns.