150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Eins og ég kom inn á þá er verið að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég kom hér inn á það viðhorf sem ég held að sé allt of ríkjandi í samfélaginu, oft að ósekju, að mat á umhverfisáhrifum sé töf á framkvæmd í stað þess að framkvæmdaraðilar fagni því að verið sé að meta áhrif á umhverfi af framkvæmd þeirra. Með leyfi forseta:

„Reynslan sýnir að kröfur leyfisveitenda vegna framkvæmda í flokki B og flokki C hafa þróast í átt að fullu umhverfismati. Ferlið við leyfisveitingar fyrir smávirkjanir er því kostnaðarsamt, þungt og tímafrekt og ekki í samræmi við framkvæmdir að sama umfangi í öðrum geirum, eins og t.d. í landbúnaði og ferðaþjónustu. Það getur tekið tvö til þrjú ár að fá leyfi til að byggja litla eða meðalstóra virkjun.“

Þetta er viðhorfið sem ég var að tala um. Hér er talað um mat á umhverfisáhrifum sem hluta af þungu, kostnaðarsömu og tímafreku ferli og ekki í samræmi við framkvæmdir að sama umfangi. Það hefði verið ágætt að fá nákvæmlega dæmi um það af því við erum alltaf að bera saman mjög ólíkar framkvæmdir. Rennslisvirkjun versus fjós?

Forseti. Þetta er það sem ég hef verið að tala um sem andann í þessu, sem leiðir til þess að ég get ekki stutt það að við nálgumst málefni smávirkjana bara út frá því að það eina sem þar þurfi að gera sé að einfalda leyfisveitingaferlið. Ég sagði áðan að kannski er það eitt af því sem þarf að skoða, kannski er það óþarflega þungt þegar kemur að minnstu virkjununum, ég þekki það bara ekki. En ef hér væri lögð til allsherjarúttekt á smávirkjunum og umhverfi þeirra með öllu því sem ég hef tiltekið, með umhverfissjónarmiðum, væri afstaða mín til þessa máls allt önnur.