150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, ég get verið sammála því með misræmið sem hv. þingmaður kom hér inn á í lokin. Það sem ég var að draga fram með sambærilegar framkvæmdir er að það er ekki hægt að bera saman neinar framkvæmdir, þær eru aldrei alveg eins. Ég skil hvað hv. þingmaður á við með umfangið og það allt. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að við eigum að gera miklu meira af því að meta umhverfisáhrif þegar við breytum landi, endurheimtum votlendi, ræktum skóg. Til er fólk sem vill sá lúpínu, breyta melum í lúpínubreiður. Það er breyting á landinu. Við eigum ekki að hika við að meta umhverfisáhrif af þessu af því að mat á umhverfisáhrifum er ekki endalok, hvað er gert þar. Það gerir að verkum, hæstv. forseti, að það er svo erfitt að meta alltaf. Það þarf að fara í valkostagreiningu. Þú veist ekki nákvæmlega hvernig endanleg framkvæmd verður af því að það hefur kannski breyst vegna ólíkra valkosta.