150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, það er vissulega óvænt en virkilega ánægjulegt að margir þingmenn hafi skoðun á því að ég vilji slá alla þessa varnagla þegar að þessu kemur. Ég er bara algerlega sammála hv. þingmanni og ég kom örlítið inn á það í minni ræðu að það er stór og mikill munur á því hvort verið er að virkja bæjarlækinn til að knýja bæjarhúsin og þá starfsemi sem fram fer á jörðinni, svo dæmi sé tekið, og svo eitthvað aukreitis sem fer kannski á næstu bæi og getur jafnvel sparað línulagnir inn í dali o.s.frv., mjög fínt, og svo margra megavatta virkjun sem hefur kannski fyrst og fremst þann tilgang að selja rafmagn og græða peninga.

Ég vitnaði í þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur lagt fram um að breyta þessum stærðarmörkum og myndi taka akkúrat á því sem hv. þingmaður er að tala um, þessum litlu virkjunum. Mig minnir að það sé miðað við 1 MW. Ég velti upp þeirri hugmynd að kannski eigi ekki að vera mörk heldur eigi að miða við umhverfisáhrif hverju sinni o.s.frv. Ég held að það sé morgunljóst að 200, 300, 400 kW virkjun á ekki heima í sama flokki og 9,9 MW, það sé algerlega morgunljóst. Þess vegna velti ég því upp og fór á hundavaði yfir söguna: Hvernig stóð á því að við enduðum í 10 MW? Okkur er kannski hollt að velta því fyrir okkur og muna að við erum löggjafinn og það sem hér var ákveðið sem 10 MW einu sinni er í okkar valdi að breyta og lækka.