150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:11]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ætli þessi umræða endi ekki þannig að hv. þingmaður sé að mörgu leyti sammála uppleggi þess sem þingsályktunartillagan fjallar um, vænti ég, en hún þarfnist kannski aðeins nánari útskýringar og lagfæringar varðandi umhverfismat og þess háttar. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að menn sjái töluvert mikil tækifæri í öllum þeim þáttum sem snúa að smávirkjunum. Kannski þurfum við bara að fara í þessa þætti og flokka það betur hvað er smávirkjun. Einhvers staðar þarf skurðpunkturinn að vera, hvort sem hann er í 20 MW eða 10 MW eða hvað sem það er. Það er mannanna verk að skilgreina það og síðan vinnum við okkur áfram í því. En varðandi þessar allra minnstu virkjanir vil ég minna á það að maður þarf u.þ.b. 45 MW til þess að reka heimili og eitt kúabú.