150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður er í réttum stjórnmálaflokki. Hér er hann búinn að taka saman umræðuna og komast að því að í raun séum við öll sammála. [Hlátur í þingsal.] Það er vel af sér vikið. Þó er hins vegar sannleikskorn í því hjá hv. þingmanni. Ég held að fyllsta tilefni sé til að skoða umhverfi smávirkjana eins og ég kom að í ræðu minni. Ég held að það væri ekki gott ef sú endurskoðun færi bara fram með það að leiðarljósi að einfalda leyfisveitingarferlið eins og hér er lagt til, alveg óháð því hvað stendur í greinargerðinni, það er það eina sem lagt er til. Það þarf að fara fram heildarendurskoðun á stærðarmörkum, ólíkum flokkum, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, í tengslum við rammaáætlun, á því hvort við gætum alltaf nógu vel að umhverfismálum og náttúruvernd, hvort hægt sé að raða virkjunum upp hlið við hlið og losna undan þessu. (Forseti hringir.) Við tölum hér um kvótaþak sem við höfum áhyggjur af að fólk losni undan. Er smávirkjanaþak sem fólk er að losna undan? Og svo framvegis.