150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að athuga hvort ég geti grafið upp eitt og annað sem við erum enn þá ósammála um. En ég vil byrja á því að segja að ef ég sneri út úr einhverju sem hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé sagði þá var það óvart, ég þyrfti að líta á upptökuna til að komast að því. Ég bið hann velvirðingar ef svo var. Það hefur verið óvart og ekki vilji minn að gera neitt slíkt.

Tillagan sem hér um ræðir felur í sér að einfalda umsóknarferlið fyrir smávirkjanir sem eru skilgreindar upp að 10 MW. Eins og ég fór yfir áðan í andsvörum þá er mér fyrirmunað að skilja nákvæmlega hvers vegna einhver gæti verið móti því. Er ekki alltaf best að umsóknarferlið sé sem einfaldast, eins einfalt og mögulegt er? Ég efast um að það hafi verið lagður sérstakur metnaður í að hafa það eins einfalt og mögulegt er. Ef svo væri þá væri það mjög skrýtið miðað við það sem maður á að venjast af yfirvöldum þegar þau búa til leyfisveitingarferli. Það hlýtur að vera eitthvað þarna sem má einfalda og þá finnst mér sjálfsagt að einfalda það, algjörlega án þess að slá af nokkrum kröfum gagnvart umhverfinu.

Nú ætla ég að fara aðeins út í blessað umhverfið. Ég vil ekki leggja neinum orð í munn, hvorki þeim sem eru á þingi í dag né hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, en ég er eldri en tvævetur og hef alveg orðið var við og tekið þátt í umræðu og rökræðum um umhverfismál og sér í lagi um áhrif vatnsfallsvirkjana í gegnum tíðina, frá því að ég var unglingur, sem er kannski ekkert rosalega langt síðan. Þeim sem hér stendur er það algerlega augljóst að það er ákveðið viðhorf ráðandi í íslensku samfélagi eða hefur alla vega verið gagnvart umhverfisáhrifum vatnsaflsvirkjana. Það viðhorf hefur einkennst af því að vatnsaflsvirkjanir séu neikvæðar fyrir umhverfið. Það er góð ástæða fyrir því viðhorfi. Það er vegna þess að þær geta haft mjög neikvæð áhrif á umhverfið. En mér finnst sömuleiðis vanta í umhverfisverndarumræðuna, bæði meðal umhverfisverndarsinna og meðal iðnaðar- og virkjunarsinna, að líta aðeins meira á þetta eftir excel-skjalinu með tilliti til umhverfisverndar. Hérna hefur verið sagt að það eigi ekki að líta á þetta út frá excel-skjalinu. Jú, það er allt í lagi að setja hjarta sitt og sál í eitthvert mál en excel-skjalið skiptir máli, virðulegi forseti. Það skiptir máli hverjar staðreyndirnar eru. Það skiptir máli hversu mikil orka kemur. Það skiptir máli. Það er ekki þannig að stærri virkjun sé sjálfkrafa verri. Stærri virkjun skilar almennt, geri ég ráð fyrir, meiri orku. Það er gott. Það að búa til umhverfisvæna orku með vatnsaflsvirkjununum er jákvætt fyrir umhverfið, virðulegi forseti. Mér finnst oftast vanta þann vinkil í orðræðu umhverfisverndarsinna.

Ég ætla að hafa smájafnvægi í þessu og gagnrýna líka iðnaðar- og virkjunarsinna fyrir að hafa ekki meira orð á þeim þætti að vatnsfallsvirkjanir eru með bestu leiðunum til að búa til rafmagn. Við sjáum það alveg fyrir að það verður meiri eftirspurn eftir rafmagni á þessari öld, ekki bara vegna þess að við erum að finna nýrri og skemmtilegri leiðir til að nýta það heldur líka vegna þess að við þurfum að skipta út öðrum orkugjöfum sem eru miklu léttari, meðfærilegri og í stuttu máli ódýrari, t.d. olíu. Í gegnum tíðina hefur mér fundist það skaða svolítið góðan málstað umhverfisverndarsinna — og ég tek það fram að ég er umhverfisverndarsinni sjálfur, vil vernda alla plánetuna, ekki bara einhvern fjörð eða dal — að sú orðræða byggir stundum á ákveðnum misskilningi. Ég ætla að nefna þrennt sem mér hefur fundist vanta úr átt umhverfisverndarsinna á grundvelli umhverfisverndar. Ekki á grundvelli iðnaðar, ekki á grundvelli gróða eða eignarréttar eða neins slíks, heldur á grundvelli umhverfisverndar. Eitt er fjárhagsleg forgangsröðun. Mér tókst ekki að finna það á netinu í fljótu bragði en ég sá fyrir mörgum árum að það var umhverfisverndarsinni sem hafði dirfst að setja hlutina upp í ákveðna forgangsröð, útlistaði að þetta hérna skipti kannski ekkert voðalega miklu máli miðað við annað sem skipti meira máli, hversu miklir peningar væru til, hversu mikið var hægt að fá úr þessum sjóðum o.s.frv. Þessi einstaklingur sagði frá því að hann upplifði mikla reiði frá umhverfisverndarsinnum fyrir þetta, eins og hann væri að setja verðmiða á náttúruna, eins og hann væri að gera náttúruna að kapítalísku ógeði. Það er auðvitað reginmisskilningur í því hvernig á að nálgast umhverfisvernd. Auðvitað þarf að forgangsraða og auðvitað þarf að verðmeta. Þegar kemur að umhverfisvernd er mjög gott að hafa hjartað á réttum stað. En það er ekki alveg nóg, alveg eins og þegar kemur t.d. að heilbrigðisþjónustu, það þarf að verðmeta hluti. Við fáum erfiðar spurningar eins og hvernig á að nýta fé til að ná sem bestum árangri á hvaða sviði og hvers vegna og til hversu langs tíma. Það eru erfiðar spurningar og eðlilegt að fólk finni mikið til þegar það ræðir þær eða heyrir um þær. En það breytir ekki því hvað er rétt gera. Það er excel-skjalið og hjartað sem svara því hvað er rétt að gera.

Sögulega hefur verið mikil andstaða við kjarnorku, sér í lagi til að berjast við loftslagsbreytingar, sem er mjög undarleg nálgun. Ég ætla að byrja á því að segja, þannig að ég hræði ekki vini mína hérna á Íslandi, að ég er ekki að leggja til kjarnorkuver á Íslandi. Ég held að það væri mikið glapræði sökum þess að Ísland er eldfjall. [Hlátur í þingsal.] En kjarnorka er samt sem áður einn af þeim þáttum sem við eigum að líta til sem dýrategund þegar kemur að því að berjast við loftslagsbreytingar. Þetta hefur líka þótt ákveðið guðlast í röðum sumra umhverfisverndarsinna vegna þess að þeir líta á kjarnorku sem í eðli sínu slæma, sem hún er ekki. Hún hefur kosti og galla. Þegar kemur að loftslagsbreytingum hefur hún kosti. Þegar kemur að urðun úrgangs hefur hún galla. Það er fullt af svona hlutum sem við þurfum að vega og meta og það er ekki alltaf auðvelt. Reyndar myndi ég segja að það væri oftast erfitt þegar kemur að raunverulegum lausnum.

Það er samt sem skiljanlegt að fólk sé efins og tortryggið þegar kemur að virkjunum á Íslandi vegna annars sem hefur líka verið rætt um, miklu meira með réttu, finnst mér af hálfu umhverfisverndarsinna, og það er hvernig við erum að nýta orkuna. Ef það hefði á sínum tíma verið sett það markmið að við myndum nýta orkuna til að fara í alvöruorkuskipti þá hugsa ég að við gætum öll verið komin á rafmagnsbíla í dag. Það kæmi mér ekki á óvart, með fyrirvara um kostnaðinn sem fylgir því að kaupa þessa bíla. Eða þá að búa til vetni, sem er dýrt að búa til og ekki góð nýting á orku, en ef það væri hægt að skipta út olíunni fyrir vetni, þótt það væru afföll af orkunni með því að búa til vetni úr rafmagninu og vatninu, þá væri það kannski hagkvæmt. En við fórum aldrei þá leið, fórum beint í stóriðju, að búa til ál og kísil. Hvorugt er algjörlega gagnslaust frá umhverfisverndarsjónarmiði, ál er mjög endurvinnanlegt, það er gott, það er mjög auðvelt að endurvinna ál. Ríkið þarf varla að koma að því, ef því er hent út á götu þá borgar sig að taka það upp og endurvinna. Það er gott. Það er jákvætt. Ég hef aldrei alveg skilið af hverju áliðnaðurinn er ekki sjálfur duglegri við að auglýsa þessa staðreynd. Auðvitað er líka mikil mengun af álframleiðslu sem má heldur ekki líta fram hjá. Þetta er ekki svart eða hvítt. Á sama hátt vill maður ekki endilega hafa kísilverksmiðju við hliðina á byggð. Það er mengun af kísil en hann er notaður til að búa til sólarrafhlöður, einhvers staðar þarf að búa til kísil til að búa til sólarrafhlöður sem við þurfum að nota. Af hverju gortar iðnaðurinn sig ekki meira af þessum áhrifum? Það er það sem ég skil ekki alveg. En þarna er mengun líka og ýmsir hlutir sem þarf að huga að.

Ein besta leiðin til að búa til rafmagn er með vatnsfallsvirkjunum. Spurningin er: Höfum við mikið gagn af vatnsaflsvirkjunum hér á Íslandi? Ég myndi segja já. Og núna á tæpri einni og hálfri mínútu ætla ég að henda mér beinustu leið í þriðja orkupakkann og sæstreng og segja það að þótt ég telji það ekki skynsamlegt efnahagslega fyrir Ísland að leggja sæstreng í dag þá held ég samt að það væri gott ef það væri efnahagslega hagkvæmt, ef við hefðum það mikla orku og gætum virkjað hana án þess að ganga of nærri náttúrunni, að við gætum selt hana á góðu verði út úr landi og þar með hjálpað öðrum þjóðríkjum, til að mynda Bretlandi og öðrum Evrópuríkjum, við að losa sig við rafmagnsframleiðslu sem byggir á kolefnisbrennslu. Það væri gott, það væri mjög gott. Áhyggjurnar sem umhverfisverndarsinnar hafa haft af því að leggja sæstreng eru einmitt þær að þá fari menn í að virkja allt sem hægt er að virkja á Íslandi. Ég er ekki viss um í fyrsta lagi að þær áhyggjur séu endilega á rökum reistar. Í öðru lagi er ég ekki endanlega sannfærður um að það sé í eðli sínu slæmt að leita fleiri tækifæra til að framleiða orku til sölu úr landinu með umhverfisvænum hætti eins og vatnsfallsvirkjunum. Mér finnst samtalið vera svolítið komið á þann tímapunkt þannig að það er ágætt að ég sé búinn með tímann. En því er ekki lokið og ég styð þessa tillögu (Forseti hringir.) og ég er umhverfisverndarsinni en mér finnst að samtalið mætti vera aðeins dýpra á milli beggja hliða, ef svo mætti segja.