150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég gat ekki annað í áhugaverðum umræðum og andsvörum en óskað eftir því að taka til máls þar sem það vill svo furðulega til að mér finnst mat á umhverfisáhrifum mjög áhugavert mál. Ég þakka hv. þingmönnum sem leggja fram þessa þingsályktunartillögu fyrir að koma fram með hana og ég held að hún eigi fullt erindi hingað inn, þó ekki nema sé fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað í þingsal núna. Ég hef sagt það áður í þessum stól, virðulegur forseti, að ég held að við séum svolítið komin út í skurð þegar kemur að þessum málum. Mat á umhverfisáhrifum og hugmyndin um hverju því er ætlað að leysa úr er gríðarlega mikilvægt. Það að tryggja að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda áður en teknar eru endanlegar ákvarðanir um leyfisveitingar er mikilvægt. Að stuðla að samvinnu hagsmunaaðila og aukinni þátttöku almennings í ákvörðunum um framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið er mikilvægt og það er einnig mikilvægt að bregðast við fyrirsjáanlegum neikvæðum afleiðingum með mótvægisaðgerðum við hönnun framkvæmdanna. Þetta á við varðandi umhverfismat framkvæmda, en þegar við komum að umhverfismati áætlana er því ætlað að bera saman mismunandi valkosti. Mig langar að velta því upp hvort það sé hluti af vandamálinu sem við glímum við, þegar kemur að ýmsum framkvæmdum og skipulagsáætlunum, að við séum ekki að öllu leyti að nota tækið rétt. Ég er kannski að fara örlítið út fyrir efnið, virðulegur forseti, ég átta mig á því að þegar við erum að tala um smávirkjanir erum við almennt að tala um framkvæmdir en oft er það þannig að það er búið að ákveða að fara einhverja eina leið en svo er eftir á farið í það að reyna að uppfylla lagaskilyrðin sem felast í umhverfismatinu á meðan ég held að umhverfismatið hafi verið hugsað sem aðferðafræði til að komast að einhverri niðurstöðu. Ég held að þetta sé hluti af vandamálinu.

Ég sagði áðan að mér fyndist við vera komin út í skurð varðandi þetta regluverk og þess vegna held ég að sú vinna sem á sér stað hjá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra við að endurskoða þessa löggjöf með starfshópnum sé mjög mikilvæg. Ég vil reyndar ítreka að mér finnst skiplagslögin þurfa að vera þar undir líka því að þar er fjallað um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og þetta tengist allt. Ástæðan fyrir því að ég segi að við séum komin út í skurð er að mér finnst stundum eins og þetta kerfi sé farið að vinna fyrir kerfið sjálft en ekki fólkið og umhverfið eins og það var hugsað í upphafi. Nú segi ég þetta vegna þess að ég hef yfir tíu ára reynslu af því að vera formaður skipulagsnefndar og takast á við alls konar framkvæmdir, línulagnir og annað og fara í gegnum svona ferli í einu af stærri sveitarfélögum á landinu. Oft klóruðum við okkur í höfðinu og oft þurftum við að leita aðstoðar utanaðkomandi aðila eins og Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar ef svo bar undir. Oft fannst mér þetta snúast meira um það að framleiða einhverjar skýrslur heldur en að hjálpa okkur að komast að því hver væri besta niðurstaðan og hverjar væru bestu mótvægisaðgerðirnar. Það er fjöldi verkfræðistofa sem gefa sig út fyrir að vinna sig í gegnum svona efni og mér finnst þetta kerfi bara vera á sjálfstýringu. Það gerir svo að verkum, sem er svolítið lýst í greinargerðinni, að virkjanir sem við teljum vera smávirkjanir og teljum vera öllum í hag, lenda í einhverju rosalegu skriffinnskubákni og ekkert verður af þeim. Þetta á ekki bara við um smávirkjanir. Þetta eru ýmiss konar framkvæmdir, ýmiss konar mjög mikilvægar framkvæmdir, þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir.

Þá skil ég líka, og það var þess vegna sem ég bað um orðið þegar fólk var í andsvörum, algjörlega sjónarmiðið sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom með því að við viljum jú leggja mat á þessar framkvæmdir og hvaða áhrif þær hafa á umhverfið og við viljum geta brugðist eins vel við og kostur er. Ég held því að svarið við þessu felist ekki endilega í því að gefa einhvern afslátt fyrir einstaka framkvæmdir en ég tek undir það sem sagt er, að við þurfum að flokka þær. Það geta ekki allar framkvæmdir átt heima í sama stóra og langa og mikla matsferlinu. Við hljótum líka að geta verið með einfaldar lausnir. Það á örugglega við um smávirkjanir en það er margt annað sem er þar undir. Þess vegna held ég að svo mikilvægt sé að vinnan klárist við endurskoðun á þessum lögum og ég ítreka enn og aftur að skipulagslögin verða að vera þar undir líka því að við lendum allt of oft í því að smáframkvæmdir enda í löngu ferli. Ég get tekið dæmi: Niðurgrafinn vatnstankur í sveitarfélaginu Mosfellsbæ, sem var nauðsynlegur til að uppfylla aðrar reglugerðir og lög sem við höfum sett hér, þurfti að fara í eins og hálfs árs ferli með alls konar umsögnum og deiliskipulagi og umhverfismati og öllum pakkanum. Þá er eitthvað að, virðulegur forseti. Þá höfum við búið til kerfi sem snýst í kringum kerfið en er ekki til að leysa raunverulegu vandamálin.

Ég ætla bara að þakka þingmönnunum sem lögðu fram þingsályktunartillöguna. Ég held að það sé okkur hollt og gott að ræða þetta og ég efast ekki um að það komi líka áhugaverðar umsagnir um tillöguna í nefndinni sem verður vonandi til þess að ýta á það að við endurskoðum kerfið allt, fyrst og fremst með umhverfið í huga en líka það að hægt sé að vinna með það og að hér leysist mál.