150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þótt ég hafi reynslu af því að starfa í þessum geira í töluverðan tíma þá ætla ég ekki að gefa mig út sem einhvern sérfræðing og viti þar af leiðandi alveg svarið við spurningu hv. þingmanns. Nú þekki ég ekki virkjunina í bakgarðinum hjá hv. þingmanni eða forsögu hennar, en sjö ár hljómar sem fáránlega langur tími fyrir slíka virkjun. Ég ímynda mér að vandamálið hljóti að vera a.m.k. tvíþætt og jafnvel fleiri vandamál uppi. Eitt af því sem ég held að við eigum ekki gleyma er það sem ég nefndi í ræðu minni, að það kann að vera að við séum að nota tækið rangt. Þar af leiðandi séu þeir aðilar sem vinna þessa vinnu að byrja á ákvörðuninni og bakka svo til baka í það að uppfylla, eins og hv. þingmaður orðaði það, kröfur skriffinnskubáknsins. Ég held að hugmyndafræðin á bak við lögin og aðferðina sé að þetta á að hjálpa okkur að taka ákvörðun. Er virkjun þarna skynsamlegur kostur eða ekki, á hún að vera einhvers staðar annars staðar, hverjar gætu verið möguleg mótvægisaðgerðir og þess háttar? En að því sögðu þá held ég að það eigi alveg við, og það er auðvitað hugmyndafræðin á bak við þessa þingsályktunartillögu hjá hv. þingmönnum, að við hljótum að geta flokkað framkvæmdir í flokk eftir mikilvægi. Það þurfi ekki allar framkvæmdir að fara í gegnum jafn ítarlegt ferli. Það er málflutningur sem ég tek undir. En ég treysti mér ekki til að segja hér og leggja mat á það nákvæmlega hvar slík mörk ættu að liggja. Ég tel mjög mikilvægt að í vinnu við endurskoðun á lögum um umhverfismat og skipulagslögunum, sem ég vil að séu sett í sama pakka, sé horft til þess að ákveðnar framkvæmdir þurfi kannski ekki að fara í gegnum alveg allt ferlið, það sé til, ég ætla ekki að segja undanþáguákvæði heldur einhver auðveldari leið.